Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar þar sem segir að aukin velferð dýra sé höfð að leiðarljósi auk þess sem aðstaða fyrir fræðslustarf verður bætt. Gagnrýnt hefur verið hve mikið pláss selirnir í skemmtigarðinum hafa. Þá hafa sumir gagnrýnt að selir séu yfir höfuð í húsdýragarði.
Þjónustuhúsið verður með nauðsynlegri inniaðstöðu til almennrar umhirðu og aðhlynningar dýra. Stórir gluggar neðan vatnsborðs á nýrri selalaug gefa gestum garðsins tækifæri til að sjá selina með nýjum hætti. Nýja selalaugin mun tengjast eldri laug. Setbekkir verða fyrir framan nýja laug og aðgengi fyrir alla verður tryggt.

„Þessi viðbót mun stórauka getu garðsins til að sinna fræðslustarfi sínu auk þess að sinna betur dýrunum, þar á meðal móttöku villtra dýra í hremmingum í tengslum við Dýraþjónustu Reykjavíkur,“ segir í tilkynningunni frá Reykjavíkurborg.
„Til grundvallar nýrrar aðstöðu eru staðlar frá samtökum dýragarða í Evrópu (EAZE) um landseli (Phoca vitulina). Gert er ráð fyrir að eldri bygging (selabyrgi) verði nýtt fyrir lagnir, mælagrind og hreinsibúnað.“

Áætlað er að framkvæmdirnar kosti 125 milljónir króna á verðlagi í apríl 2022. Samkvæmt frumáætlun um framkvæmdatíma má gera ráð fyrir að framkvæmdum við nýja selalaug, þjónustuhúsnæði og lóðarfrágang geti verið lokið í nóvember 2022.
Helstu stærðir
- Ný selalaug verður um 100 m2 og 300 m3 að stærð.
- Mesta dýpt laugar verður um fjórir metrar.
- Stærð þjónustuhúss verður um 37,6 m2 (birt flatarmál) með tæplega 11 m2 innilaug.


