„Að eiga mömmu eða pabba með krabba“
„Mér fannst það fyrst mjög erfitt en núna finnst mér gott að tala um þetta,“
segir Valdimar sem, líkt og áður sagði, er níu ára og bætir við: „Líka að tala bara um þetta við matarborðið, þó það líði ekki öllum endilega vel að tala um þetta að þá skiptir það samt máli“.
Róbert og eiginkona hans Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir eiga saman fjögur börn og er Valdimar yngstur þeirra, nema kötturinn sé talinn með líkt og hann kýs að gera.
Valdimar hefur fengið að fara með föður sínum í geislameðferð þar sem hann sá tækið skjóta geislum og segir það hafa verið afar áhugavert. „Það er ekki bara hægt að segja þessu að fara,“ segir hann.
„Annars deyr maður útaf þessu, það þarf að gera eitthvað í þessu“
Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir settist niður með feðgunum í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Fokk ég er með krabbamein. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan. Hlaðvarpið er framleitt af Krafti í samstarfi við Vísi.
Gerðist hratt
Róbert fann fyrir óþægindum undir lok október í fyrra og fór á læknavaktina í kjölfarið og var það upphafið að hans vegferð í veikindunum. Sérfræðingurinn sem hann fór til var viss um að um illkynja æxli væri að ræða, sem reyndist rétt, þrátt fyrir að tvö sýni í upphafi ferlisins hafi sýnt fram á annað.
Helgina eftir var hann strax kominn af stað í það verkefni að losa sig við meinið sem hann fékk snemma að vita að væri líklega læknanlegt. Róbert hefur nú lokið við tuttugu skipti í geislameðferð og er í sex skipta lyfjameðferð en hún er þriggja vikna kúr í senn.
Börnin með margar spurningar
„Við vissum að þau væru með spurningar og við vissum að við gætum ekki svarað þeim,“
segir Róbert um fundinn sem þau pöntuðu með læknum fyrir börnin sín. Hann segir það hafa verið frábært að geta sest niður með þeim og fengið öll svörin og fundu þau andrúmsloftið léttast eftir hann því þá var minni óvissa.
Gott að tala um tilfinningarnar
„Það er allt í lagi að vera skíthræddur eða kvíðinn,“
segir Róbert og segir allar tilfinningar eigi sér skýringar og það sé gott að tala um þær. Hann vill líka hvetja aðra til þess að vera opin við börnin sín „Þau skynja alveg að þú eigir í erfiðleikum, sama hverjir þeir eru, segðu bara frá þeim,“ segir hann og telur það betra fyrir börnin af vita afhverju eitthvað er öðruvísi á heimilinu.
Erfitt að vita af þessu öll þessi ár
Þrátt fyrir að allt hafi gerst frekar hratt frá því að grunur kviknaði um krabbameinið virðist aðdragandinn hafa verið langur. „Mest pirrandi var þegar að læknirinn segir að þetta sé búið að fá að grassera þarna í ein tíu ár, án þess að maður finni neitt,“ segir Róbert.
„Þetta er búið að vera lengur en ég er búinn að vera til,“
bætir Valdimar sakleysislega við. „Orðið fjögurra cm stórt þegar að maður loksins tekur eftir einhverju, það gerir mig brjálaðann,“ segir Róbert
Ætla að gráta úr gleði
Valdimar er spenntur fara með pabba sínum í sund og til útlanda eftir að krabbameinið fer og ætla þeir feðgar að gráta saman úr gleði þegar þar að kemur. Fjölskyldan ætlar að fagna því að „pabbi-pabbi sé kominn aftur og krabba-pabbi sé farinn“ eins og Valdimar orðaði það.