Bærinn Bjarnarhöfn í Helgafellssveit stendur undir Bjarnarhafnarfjalli, sem rís stakt við mynni Hraunsfjarðar. Á staðnum er myndarlegt fjárbú, sem þau Brynjar Hildibrandsson og Herborg Sigríður Sigurðardóttir eiga og reka. Búið er mjög snyrtilegt að gaman að koma þar inn. Sauðburður er alveg að klárast og mikið af ánum komnar út á tún með lömbin sín.
„Þetta er botnótt gimbur, þessi verður sett á í haust, hún bíður eftir því að komast út í góða veðrið. Það er uppáhalds liturinn minn og golsótt,“ segir Herborg Sigríður.
Þrátt fyrir að sauðburður sé alltaf skemmtilegur tími þá segir Herborg hann mjög erfiðan og taka á.
„Já, það er bara stanslaus viðvera hérna, svona 16 tíma á sólarhring, það er svona erfiðast, þreyttar fætur.“
Frjósemin hefur verið góð í fjárhúsinu, 1,9 lamb á kind, sem Herborg er mjög sátt við.

En hvernig er að vera sauðfjárbóndi í dag?
„Það er bara gott, dásamlegt. Okkur leiddist ekkert í Covid og höfðum nóg að gera. Við vinnum bara svolítið með þessu. Þetta er svona hobbíið okkar þó að þær séu 420 í fjárhúsinu. Það þýðir engan barlóm, þá verður maður bara að fara að gera eitthvað annað,“ segir Herborg og brosir.
Mikilvægur hlutur í sauðburði er að marka lömbin og skrá í framhaldinu upplýsingarnar um viðkomandi mark í tölvu. Þannig var það ekki í gamla daga.
„Nei, þá var það bara vasahnífurinn, og þá mörkuðu ekki konur, var það, það var karlmannsverk,“ segir Herborg og hélt áfram að marka.
