Lífið

„Þarna eru „gamlir“ jaxlar og stórstjörnur ásamt leikurum framtíðarinnar“

Elísabet Hanna skrifar
BeFunky-collage vf dg jbmadonna (3)

Trölladans er frumsaminn rokksöngleikur, um Jonna sem lendir í tröllabyggð, eftir Guðmund Ólafsson en meðhöfundur og höfundur tónlistar er Friðrik Sturluson. Með aðalhlutverk fara Mikael Emil Kaaber, Birna Pétursdóttir, og Eyþór Ingi Gunnlaugsson.

Guðmundur hefur tvisvar sinnum unnið íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bækurnar um Emil og Skunda. Upptökustjórn, tónlistarstjórn og útsetningar voru í höndum Kristins Sigurpáls Sturlusonar og Friðriks Sturlusonar. Þeir Sigurjón Kjartansson og Stefán Hilmarsson syngja báðir lög í söngleiknum og einnig koma fleiri góðir leikarar að verkinu.

Blaðamaður hafði samband við Guðmund og fékk að heyra meira um ferlið:

Hvaðan kom hugmyndin?

Mér finnst nú nokkuð vel í lagt að kalla þetta „rokksöngleik“ þó vissulega sé þetta hugsað sem leikrit og tónlistin sé rokkuð. En FriðrikSturluson átti upphaflegu hugmyndina, sem hann viðraði við mig. Við höfðum unnið saman áður með svolítið svipað form og gefið út á geisladiski sem heitir „VÖKULAND“, þar sem blandað er saman sögumanni, leiknum senum og tónlist. Við ákvaðum að ganga aðeins lengra í þetta sinn, þannig að tónlistin skipar stærri sess, hlutur sögumanns minnkar en leikin atriði eru í forgrunni.

Guðmundur Ólafsson.Aðsend

Var hann alltaf skrifaður fyrir Storytel?

Nei, reyndar ekki. Við vorum búnir að fara með þetta efni í nokkra hringi, ef svo má segja, en eftir að hafa fengið góðar undirtektir hjá Storytel var það aldrei spurning um að við vildum gera þetta á þeirra vegum.

Hvernig var að taka hann upp?

Það var bara skemmtilegt verkefni með góðu fólki en Friðrik á langmestan hlut í þeirri vinnu og lá yfir þessu vakinn og sofinn til lokadags. 

„Ég aftur á móti kom að leikstjórn og lék aðeins sjálfur.“

Er planið að fara með hann á svið í framtíðinni?

Við höfum vissulega hugleitt það og hugað að möguleikum á slíku, en það er auðvitað stærra verkefni og undir öðrum komið. Ég held aftur á móti sjálfur að þetta gæti alveg þolað yfirfærslu á leiksvið, en það er að sjálfsögðu önnur vinna sem slíku fylgir.

Leikaraval?

Það var samvinna okkar Friðriks og þeirra sem komu að vinnunni af hálfu Storytel. Fyrst og fremst vildum við fá leikara sem hefðu raddir í þetta, þá bæði sönglega og leiklega. Ég tel að okkur hafi tekist að manna þetta vel. Þarna eru „gamlir“ jaxlar og stórstjörnur ásamt leikurum framtíðarinnar og ég er hæstánægður með frammistöðu þeirra allra.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×