Klukkan 07:20 í morgun barst neyðarkall frá bátnum og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út á hæsta forgangi ásamt nærstöddum bátum. Klukkan 07:26 voru mennirnir komnir um borð í nærstaddan bát.
Svo virðist sem litlu hafi mátt muna þar sem skömmu síðar var báturinn kominn á hliðina og marraði í hálfu kafi, að því er segir í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Tilkynningin ber titilinn Mannbjörg á Breiðafirði.
Björgunarskipið Björg frá Rifi var kallað á vettvang og skoðar nú möguleika á að draga bátinn í land.
