„Að vera skilinn eftir á bryggjunni og horfa á eftir niðurgreiddri ferjunni sigla án okkar út í Viðey er sárt, það svíður. Það gerist fyrir hjólastólanotendur í hvert sinn sem Reykjavíkurborg heldur niðurgreiddan viðburð þar, auglýstan fyrir alla, en er bara fyrir suma,“ segir í tilkynningu frá Guðjóni.
Hann hafi beðið eftir úrbætum í átján ár en ekkert gerst. Allir borgarstjórar á þeim tíma, sem og Faxaflóahafnir, hafi lofað að bæta aðgengið, en ekkert gerist. Þolinmæðin sé að þrotum komin.
„Á vef borgarinnar um aðgengisleysi að Viðey er ein skýringin sú að vegna flóðs og fjöru sé erfitt um aðgengi að eyjunni. Síðan ég óskaði fyrst eftir aðgengi að Viðey hef ég farið til: Vestmannaeyja, Flatey á Skjálfanda þar sem vissulega gætir sjávarfalla, auk þess fór ég á Kínamúrinn og félagar mínir skoðuðu Akrapolis í Grikklandi um daginn. Að eitthvað sé ekki hægt er bara bull og viljaleysi,“ segir Guðjón.
Hann bendir á að í Viðey séu tvö salerni hjólastólamerkt og því vanti nú bara leið fyrir notendur þeirra að komast á svæðið.
„Metnaðarleysi Faxaflóahafna og Reykjavíkur er algert þegar kemur að aðgengismálum,“ segir Guðjón og kallar eftir aðgerðum strax. „Sýndarmennskan er alger.“