Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins á Íslandi, hefur lengi barist fyrir bættu aðgengi og áður gagnrýnt að borgin haldi og niðurgreiði viðburði sem eiga vera fyrir alla en eru í raun bara fyrir suma. Það á til að mynda við í Viðey og hefur hann nú sent borgarstjórn áskorun um úrbætur.
„Þetta snýst um algjört metnaðarleysi borgarinnar í aðgengismálum að Viðey,“ segir Guðjón um málið. „Eiginlega síðan að ég settist í stólinn fyrir átján árum þá hefur mér sviðið að komast ekki allt eins og allir aðrir.“
Varðandi aðgengi við Skarfarbakka hafi borgin bent á Faxaflóhafnir sem hafi á móti bent á vandamál tengd flóði og gjöru og því ekkert breyst. Ýmislegt þurfi að laga til að gera hjólastólanotendum kleift að ferðast til Viðeyjar.
Til að byrja með þarf að ganga niður brattan ramp og þegar niður er komið blasir annað vandamál við en þá þarf að fara upp tröppur til að komast um borð í ferjuna sjálfa. Guðjón bendir enn fremur á að ferjan hafi aldrei verið hugsuð sem slík og að nú þurfi að gera þetta almennilega.

Þá vísar hann til þess að annars staðar sé ekki sama vandamál og bindur nú vonir við að ný borgarstjórn geti leyst vandann. „Þeir ætla að löggilda samning sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðra þannig að þetta hlýtur að koma inn í það,“ segir Guðjón.
Mikil vinna hafi farið í að bæta aðgengismál, ekki síst í Reykjavík, en mikið sé þó eftir.
„Þetta kemur smám saman en hér hreyfist ekkert,“ segir Guðjón um Viðey, en lofar því þó að halda áfram baráttu sinni sama hvað þarf. „Þeir losna ekkert við mig.“