Fótbolti

Engin plön hjá FIFA um að færa HM kvenna í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bandaríska landsliðskonan Megan Rapinoe fékk nóg af bikunum eftir HM í Frakklandi árið 2019.
Bandaríska landsliðskonan Megan Rapinoe fékk nóg af bikunum eftir HM í Frakklandi árið 2019. Getty/Jose Breton

Alþjóða knattspyrnusambandið segir ekkert til í þeim orðrómi að FIFA sé að kanna möguleikann á því að færa næsta heimsmeistaramót kvenna í fótbolta sem á að fara fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.

Franska blaðið L'Equipe skrifaði frétt í gær um að fólk hjá FIFA hafi verið í sambandi við forystufólk í evrópskum fótbolta til að ræða möguleikann á því að fresta heimsmeistaramótinu um nokkra mánuði.

Íslenska kvennalandsliðið á enn möguleika á því að komast á þetta heimsmeistaramót en þangað hafa stelpurnar okkar aldrei komist áður. Leikir liðsins í september ráða því hvort íslensku stelpurnar komast beint á HM eða fara í umspil um laus sæti.

Hugmyndin um að færa HM aftur um nokkra mánuði tengist óbeint því að HM karla í Katar var fært aftur til nóvember og desember. Með því að gera það saman hjá konunum þá færi keppnin fram um sumar í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en ekki um vetrartímann eins og planið er núna.

Talsmaður FIFA staðfesti hins vegar við ESPN um að heimsmeistarakeppnin muni hefjast 20. júlí 2023 og það séu engar áætlanir um að færa keppnina. Úrslitaleikurinn á að fara fram 20. ágúst í Sydney í Ástralíu.

Með því að færa keppnina þá myndu menn tryggja hagstæðari aðstæður eins og meira dagsljós sem sjónvarpsstöðvar myndu fagna.

Áhuginn á kvennaknattspyrnu hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og eftirspurnin eftir útsendingum frá mótinu er líkleg til að halda áfram að aukast á næsta ári. Vel heppnað Evrópumót mun aðeins ýta undir frekari áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×