Þetta kemur fram í færslu á vef Veðurstofu Íslands. Viðvaranirnar í sumar voru alls fimmtíu talsins. Flestar þeirra voru gefnar út vegna vindhraða, alls 32. Fimmtán voru gefnar út vegna mikilla rigningar en þrjár vegna snjókomu.
Sumarið fór reyndar ágætlega af stað, aðeins fimm viðvaranir voru gefnar út í júní. Allar vegna vinds.
Í júlí fór hins vegar að halla undan fæti. 27 veðurviðvaranir voru gefnar út í júlí, sem að meðaltali er nálægt því að vera ein á dag. Nítján voru vegna vindhraða en átta vegna rigningar eða snjókomu.

Ágúst var örlítið rólegri en júlí en þá voru aðeins gefnar út átján veðurviðvaranir, þar af tíu vegna rigningar.
Athygli vekur að engin veðurviðvörun var gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið í sumar. Flestar viðvaranir voru gefnar út fyrir Suðurland, alls sjö.
Í færslunni er vakin athygli að þrátt fyrir að haustið hafi byrjað ágætlega sé tími haustlægða að renna upp. Rétt sé því að byrja að ganga frá sumarhúsgögnum, trampolínum og öðru því sem getur fokið áður en fyrstu haustlægðirnar mæta.