„Hún lagði stundvíslega af stað á settum degi en var þó ekkert að drífa sig, heldur tók hún sinn tíma eða um 26 klukkustundir. Það var því á mánudaginn 5. september sem okkar kona kom í heiminn á þriðju stundu, í stofu númer 3 og í hendur þriðju ljósmóðurinnar og Einars, sem fékk að taka á móti stelpunni sinni undir dyggri leiðsögn ljósmóðurinnar. Allt er þegar þrennt er,“ segir Ragnhildur Alda í færslu á Instagram.
Hún segir að allt hafi gengið eins og í sögu og að hver ljósmóðirin á fætur annarri hafi verið hárrétt kona á hverjum tíma.
„Það er þó búið að taka smá tíma að ná áttum eftir hamaganginn og venjast þessu nýja svefnleysistímabili þannig ég bið hér með einnig forláts á seinagangi í svörum síðast liðna viku,“ segir Ragnhildur Alda.
Þá segir hún að heimilisfólk njóti sín við að kynnast nýjum fjölskyldumeðlimi. Dóttirin er fyrsta barn þeirra Ragnhildar Öldu og Einars saman en fyrir á hún einn son.