„Við lítum á þetta bara 100% eins og einhverja banka, það eigi bara að vera fólk sem sinnir þessum málum, helst bara einhver grá jakkaföt og við vitum varla hvað lífeyrissjóðirnir heita sem við greiðum í. Mér finnst það ekki vera rétt af því að lífeyrissjóðir hafa möguleika á að vera mjög lýðræðislegar stofnanir eða fyrirtæki eftir atvikum,“ segir Bergur.

Í innslaginu hér að ofan er fjallað um lífeyrismál í víðum skilningi og rætt við fólk á förnum vegi um málið. Viðtal við Berg hefst á níundu mínútu.
Bergur Ebbi hefur um nokkurra ára verið varamaður í stjórnum lífeyrissjóða; nú í stjórn Lífsverks eftir að hafa tekið sæti þar fyrst árið 2019. Bergur segir að lífeyriskerfið í núverandi mynd sé tiltölulega nýtilkomið og að eðlilegt sé að fólk sé ekki farið að treysta sér alveg til að sjá fyrir sér ávinning þess til lengri tíma. Það eigi þó bjarta framtíð.
Það sé ekki fjarri lagi að halda því fram lífeyrismál séu málaflokkur fyrir nörda, en hins vegar „má líka líta á þetta þannig að þetta sé málaflokkur þar sem hagsmunirnir eru hvað allra mestir og við erum að tala ekki bara um hundruð milljarða heldur þúsundir milljarða í stóra samhenginu. Og sumir hafa áhuga á því.“
Bergur segir lífeyrissjóðina hafa mikil áhrif á það hvert við stefnum sem þjóð, enda séu þar teknar ákvarðanir um meiri háttar fjárfestingar í verkefnum og fyrirtækjum. Það sé öllum í hag að það lukkist. „Ef allt fer samkvæmt áætlun munu þessir lífeyrissjóðir standa undir því að halda uppi lífsgæðum okkar eftir að við hættum að vinna,“ segir Bergur.