Innlent

Gulur verður að appel­sínu­gulum um helgina

Bjarki Sigurðsson skrifar
Svona er viðvörunarkortið fyrir sunnudaginn.
Svona er viðvörunarkortið fyrir sunnudaginn. Veðurstofa Íslands

Gulum viðvörunum sem gefnar voru út í gær á Norðurlandi vestra og eystra og Austurlandi hefur verið breytt í appelsínugular. Vindhraði gæti náð allt að 25 metrum á sekúndu á Norðurlandi eystra. Viðvaranirnar taka gildi á sunnudagsmorgun og vara yfir nóttina.

Á Norðurlandi eystra er spáð norðan átt 18 til 25 metrum á sekúndu með mikilli úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu. Miklar líkur eru á slydduísingu á innviði og vegi að sögn Veðurstofunnar.

Fólki er bent á að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól. Miklar líkur eru á að færð spillist og ekkert ferðaveður verður á meðan viðvörunin er í gildi.

Búast má við svipuðu veðri á Ströndum og Norðurlandi vestra og gefur Veðurstofan út nánast sömu viðvörun fyrir það svæði. Vindhraði þar gæti náð 18 til 23 metrum á sekúndu.

Á austurlandi er spáð norðvestanátt, 15 til 25 metrar á sekúndu. Búist er við mikilli rigningu eða slyddu en snjókomu á fjallvegum.

Þá er búið að gefa út gular viðvaranir fyrir Vestfirði, Breiðafjörð, Faxaflóa og Suðurland. Búast má við 15 til 23 metrum á sekúndu, vindhviður gætu náð allt að 30 metrum á sekúndu. Veðurstofan segir að uppi verði vafasamar aðstæður til ferðalaga.

Uppfært klukkan 9:55.

Búið er að bæta við appelsínugulri viðvörun á Miðhálendinu. Vindhraði gæti náð allt að 28 metrum á sekúndu með mjög snörpum vindhviðum. Gular viðvaranir verða við gildi á Suðausturlandi og Austfjörðum á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×