Þriggja daga þing Hringborðsins hófst í Hörpu við Reykjavíkurhöfn í morgun en Ólafur Ragnar bauð þátttakendur velkomna á formlegri setningarathöfn klukkan 13. Auk hans flytja ávörp við setninguna meðal annarra þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Mary Simon, þjóðhöfðingi Kanada, Hákon, krónprins Noregs, Alar Karis, forsætisráðherra Eistlands, og Múte B. Egede, forsætisráðherra Grænlands.

Ólafur Ragnar nefnir að sendinefnd frá Bandaríkjunum komi með mjög öflugum hætti til Reykjavíkur nokkrum dögum eftir að Bandaríkin hafi tilkynnt um nýja stefnu í norðurslóðum. Indland sendi öfluga sendinefnd, sömuleiðis séu Kína, Japan og Kórea mætt til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
„Þannig að þetta þing, umfram önnur, staðfestir með mjög augljósum hætti að norðurslóðir eru orðinn svona meginvettvangur á valdaskákborði heimsins, hvað snertir samskipti ríkja, loftlagsbreytingar, nýtingu auðlinda, vísindarannsóknir,“ segir Ólafur Ragnar.
Hann segir öfluga þátttöku vísindasamfélagsins einnig einkenna þetta þing sem og þátttöku forystumanna frumbyggja. Þannig sé öll helsta forysta Grænlands mætt á þingið, þar á meðal forsætisráðherrann, utanríkisráðherrann og atvinnumálaráðherrann.
Hér má sjá átta mínútna langt viðtal Stöðvar 2 við Ólaf Ragnar um þing Arctic Circle: