Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Ég elska hvað þú getur tjáð þig mikið í gegnum tísku án þess að nota orð. Tíska er tjáningarform, ef ég hef mig ekkert til, hleyp út í joggaranum, með ógreitt hár og illa tilhöfð þá líður mér ekki vel.
Það er auðvitað persónulegt en í mínu tilviki eflir það sjálfstraustið að taka sér tíma fyrir sjálfa sig á morgnana áður en maður heldur út í daginn.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Ég á tvo uppáhalds vintage kjóla sem ég elska! Báðir svona pallíettu, perlu-brjálæði. Annan þeirra keypti ég í second hand búð í Toronto á 15 dollara, besti díll í heimi! Hinn keypti ég af Mögnu sem selur af sér spjarirnar á Freyjugötu 14, þeirri miklu smekkkonu. Ég klæddist honum til dæmis á þrítugsafmælinu mínu.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Það einfaldar lífið mitt töluvert þegar ég gef mér tíma á kvöldin til að velja föt fyrir morgundaginn. Morgnarnir geta orðið óreiðukenndir ef ég á eftir að finna réttu fötin.. Þá koma þessi augnablik: „Ég á ekki nein föt!“ – sem er náttúrulega algjör þvæla, ég á alveg meira en nóg.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Litríkt, gamalt og nýtt í bland.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já, ætli ég klæði mig ekki oftar í hversdagsleg föt í dag. Ég átti það til að klæða mig mjög fínt: kjóla, pils og hæla á hverjum degi. Það var mjög skemmtilegt tímabil.
Ég vann í Rokk og Rósum á Laugavegi (fallegustu búð fyrr og síðar) og keypti mér kjól nánast eftir hverja vakt.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Mér finnst fátt meira kósý en að setjast niður á kaffihús og fletta í gegnum helstu tískublöðin, Eurowoman og Costume eru í uppáhaldi. Ég fylgi líka fullt af skemmtilegu og fjölbreyttu fólki á Instagram sem ég fæ innblástur frá. Svo á ég ofboðslega smekklega mömmu sem hefur einstakt auga fyrir tísku. Þaðan kemur eflaust áhuginn!
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei, í rauninni ekki. Það er allt leyfilegt. Þess vegna er tíska svo skemmtileg: engar reglur og allir gera það sem þeir vilja.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Eftirminnilegasta flíkin í mínum huga er kannski skærappelsínugul Adidas-peysa sem ég klæddist á fyrsta skóladeginum mínum í Verslunarskólanum. Það er flík sem ég valdi af því að mér fannst hún vera Versló-leg, ekki endilega af því að mér fannst hún henta mér.
Með tímanum þorði ég að vera meira ég sjálf, sem er auðvitað eina vitið.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar kemur að tísku?
Að klæðast því sem þér líður vel í og klæðir þig vel. Kaupa flíkur eftir sniði og góðu efni. Ekki elta allar tískubylgjur!