Innblásturinn fyrir sýningunni er með sanni óhefðbundinn og áhugaverður en Rósa Sigrún dvaldi sjö vikur í Oqaatsut, rétt norðan við Ilulissat á vesturströnd Grænlands í svartasta skammdeginu á síðasta ári.
„Samfélag 25 íbúa, lamað af Covid hömlum í kulda og myrkri árstíðarinnar gaf fá tækifæri til beinna samskipta en sjónauki á þrífót í stofunni gaf færi á skoðun úr fjarlægð,“ segir í fréttatilkynningu.
Páll Ásgeir dvaldi með henni í Oqaatsut en saman skoðuðu þau grænlenskt samfélag í heimskautarökkrinu og fyrstu áhrifin birtast á þessari sýningu í teikningum Rósu og ljósmyndum og ljóðum Páls Ásgeirs.

Í fréttatilkynningu segir einnig:
„Í augum aðkomumanns er margt undarlegt í árþúsunda menningu mótaðri af myrkri og kulda, skorti og gnótt á víxl. Samfélagið líkist ísjaka. Aðeins 10% eru sýnileg. Annað er utan seilingar og lítt greinilegt. Tímabundinn gestur verður fljótt grunnhygginn sérfræðingur í yfirborðinu og skautar á því þegar heim er komið án þess að sjá myrkrið í djúpinu.“

Sem áður segir ber sýningin nafnið Rörsýn:
„Þessi sýning er brot af því sem við sáum, einskonar rörsýn inn í samfélag þjóðar sem er í senn svo nálæg Íslendingum en þó svo óralangt í burtu,“
segja hjónin.

Segja má að þessi sýning sé eins konar undirbúningur einkasýningar Rósu Sigrúnar Jónsdóttur sem henni hefur verið boðið að halda í Ilullissat sumarið 2023 og mun fjalla um líka hluti.
Sýningin opnar klukkan 17:00 á fimmtudaginn í Artak 105 Gallerí, Skipholti 9 og stendur til 23. nóvember næstkomandi.