„Verið er að vinna að viðgerðum. Við komum til með að senda frá okkur tilkynningu þegar Herjólfur leggur af stað með áætluðum komutíma til Vestmannaeyja. Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu Herjólfs.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum úr ferjunni er verið að gera lokatilraun til að koma skipinu af stað. Farþegum hefur verið boðið að yfirgefa ferjuna og bílstjórar beðnir um að bakka sínum bílum út til að hleypa þeim sem vilja fara.
„Ég er búin að vera hérna í þrjá tíma og sé bara malbik út um gluggann,“ segir Guðrún Veiga Guðmundsdóttir sem er á meðal farþega í Herjólfi.

Af athugasemdum við færslu Herjólfs að dæma eru farþegar ekki sáttir við samskipti áhafnarinnar. „Skammist ykkar með þetta samskiptaleysi,“ segir ein í athugasemdum.
Guðrún Veiga segir hins vegar að róleg stemning sé um borð.
„Það eru allir orðnir sjóaðir í því hvernig samgöngumálin ganga fyrir sig hérna,“ segir Guðrún sem er á ferðalagi frá Eskifirði þaðan sem hún er ættuð.
„Við erum búin að keyra í tíu tíma og svo áttum við að sigla í þrjá tíma. Nú erum við búin að bíða í þrjá tíma en eigum enn siglinguna eftir. Þetta er lengra ferðalag en til Balí,“ segir Guðrún en bætir að lokum við að hún sé þakklát fyrir að vín skuli vera selt um borð.
Síðast uppfært kl. 00:12 þegar gera átti lokatilraun til að koma Herjólfi af stað.