Þetta sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á tröppum Stjórnarráðshússins þegar hann mætti til fundar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um klukkan 9:30 í morgun. Katrín hafði þar boðað samningsaðila í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði til fundar.
Halldór Benjamín sagði að það blasi við öllum að undirtónninn í þessum viðræðum sé mjög þungur og ákvörðun peningastefnunefndar að hækka stýrivexti hafi flækt viðræðurnar verulega.
„Ég er bara kominn hingað til að hlusta á forsætisráðherra og svo metum við stöðuna í beinu framhaldi.“
Boltinn er hjá okkur
Halldór Benjamín segist ekki útiloka að nauðsyn sé á aðkomu stjórnvalda að kjaraviðræðunum. „Hins vegar er ljóst að við þurfum að halda áfram í þessum viðræðum. Boltinn er hjá okkur.“
Halldór Benjamín var spurður að því hvort hann eigi von á að stjórnvöld muni eitthvað gefa í skyn á fundinum um mögulega aðkomu stjórnvalda. „Mér hefur reynst gott að hlusta á forsætisráðherra. Leiðsögn hennar hefur reynst vel á undanförnum árum. Ég læt þar við sitja,“ segir Halldór Benjamín.