Í nóvember vorum við með frétt um Kacper Agnar í Njarðvík, sem er harðákveðin í að verða flugmaður og þess vegna er hann með fullkominn flughermi inn í herbergi hjá sér þar sem hann er búin að taka rúmlega fimm þúsund tíma.
Fréttin vakti mikla athygli hjá Flugfélögum hér heima og erlendis og hafa Kacper borist margar kveðjur og gjafir úr flugheiminum. Toppurinn var þó þegar Icelandair bauð honum að fljúga í einum af þremur flughermum fyrirtækisins í Hafnarfirði, sem eru þeir fullkomnustu í heimi.
„Þetta er bara alveg eins og í flugherminum hjá mér, sömu takkar og allt,“ segir Kacper Agnar.
Og þá var bara að setjast í flugstjórasætið með Guðmundi Tómasi, sem sér um þjálfunarmálin hjá Icelandair og taka á loft frá Akureyrarflugvelli og fljúga á Keflavíkurflugvöll.
„Svo flýgur þú bara og svo hjálpumst við bara að, er það ekki," sagði Guðmundur þegar þeir lögðu af stað.
Flugið gekk mjög vel, Kacper vissi nákvæmlega hvað hann var að gera, stillti takkana eins og vera ber, stillt öll ljós og mæla og naut þess að fljúga með Guðmundi, sem gaf honum góð ráð í fluginu. Lendingin var reyndar aðeins harkaleg, en það slapp allt til, enda Kascper aðeins þrettán ára.
“Þetta var bara eitthvað annað, þetta er það besta, sem ég hef gert í mínum flugtímum. Mér fannst skemmtilegast að bremsa, ég gerði það reyndar full harkalega en það var bara af því að ég var svo stressaður og spenntur,” bætir Kacper við.

„Þetta gekk rosalega vel hjá Kacper, það er augljóst að þessi vinna, sem hann er búin að setja í heima fyrir framan flugherminn, hún skilar sér, hann býr til góðan grunn þegar við verðum svo heppin að fá að ráða hann til starfa vonandi einhvern tíma í framtíðinni. Ég er viss um að hann á eftir að verða fantagóður flugmaður þegar fram í sækir,” segir Guðmundur Tómas, flugstjóri og ábyrgðarmaður yfir þjálfunarmálum hjá Icelandair.