FH vann fyrri leikinn 16–9 í Inferno en Atlantic hefur heldur betur styrkt leikmannahópinn og eru fyrrum Dusty félagarnar Bjarni og LeFluff nú sameinaðir á ný. Með þeim léku Pandaz, RavlE og Bl1ck. Lið FH skipuðu svo Zerq, DOM, ADHD, WZRD og Skoon.
Atlantic hafði betur í hnífalotunni í hin nýja korti Anubis og byrjaði liðið leikinn í vörn. Tvöföld fella frá Ravle opnaði skammbyssulotuna og Bl1ck og Bjarni sópuðu restinni upp. Næstu lotur fóru á svipaðan hátt og skipti litlu hvort FH sótti hratt á A eða B svæði.
Eftir brösuga byrjun fór FH þó að koma sér inn á sprengjusvæðin þar sem bardagarnir fóru fram það sem eftir var hálfleiks. FH átti greiða leið inn á miðjuna réðust loturnar iðulega á því hvort Atlantic næði að aftengja sprengjuna eða ekki. Liðin skiptust á lotum og vapparnir flökkuðu milli liðanna en þrátt fyrir að FH næði að sprengja sprengjuna fimm sinnum hélt Atlantic forskoti sínu.
Staðan í hálfleik: Atlantic 9 – 6 FH
Ekki er komin mikil reynsla á Anubis í atvinnumannaleiknum en kortið er engu að síður talið nokkuð hliðhollt sóknarliðinu. Ef Atlantic afsannaði það í fyrri hálfleik, staðfesti liðið það í þeim síðari. Leikmenn liðsins fóru létt og leikandi um kortið og felldu FH-inga og var leikstjórnandinn Bjarni í essinu sínu með næstum tvöfalt fleiri fellur en liðsfélagar hans. Eftir fimm lotur í síðari hálfleik var staðan orðin 14–6 fyrir Atlantic. FH klóraði örlítið í bakkann en þegar sprengjan sprakk í 24. lotu var sigur Atlantic orðinn ljós.
Lokastaða: Atlantic 16 – 8 FH
Mið sigrinum heldur Atlantic fast í toppsætið en mætir Þór í næstu umferð þar sem allt getur gerst.
Næstu leikir liðanna:
- Þór – Atlantic, fimmtudaginn 12/1 kl. 20:30
- FH – Viðstöðu, fimmtudaginn 12/1 kl. 21:30
Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.