Leikurinn fór fram í Nuke, en síðast þegar liðin mættust hafði LAVA betur 16–12.
Stalz tryggði LAVA hnífalotuna og hóf liðið leikinn í vörn. FH byrjaði hins vegar vel í sókninni, vann skammbyssulotuna í kjölfar tvöfaldrar opnunar og sprengdi sprengjuna í þeirri næstu. Leikmenn LAVA voru hins vegar ekki lengi að skella í lás. Fyrsta lota liðsins kom eftir þrefalda fellu frá Instant sem Goa7er sópaði upp eftir á síðustu stundu. FH reyndi að sækja hratt í kjölfarið en hríðféllu fyrir Goa7er og félögum. Uppstillingar LAVA voru öflugar og innan skamms var staðan orðin 7–2 fyrir LAVA.
Undir lok hálfleiks tókst FH þó að klóra í bakkann þar sem WZRD og ADHD hittu vel og björguðu lotum fyrir horn.
Staðan í hálfleik: LAVA 9 – 6 FH
LAVA jók forskotið með sóknarleik sínum í fyrri hluta síðari hálfleiks. FH leyfði þeim þó ekki að byggja upp mikinn banka, en þriggja lotu runa sem hófst á lélegu kaupi og lauk með fjórfaldri fellu frá Stalz kom LAVA í mjög ákjósanlega stöðu, 15–8 og vantaði liðið því einungis eina lotu til að vinna leikinn. En það hafðist ekki, því FH spýtti í lófana og vann hvorki meira né minna en 7 síðustu lotur leiksins.
ADHD og WZRD kepptust við að ná sem flestum fellum á meðan hvorki gekk né rak hjá LAVA og á tímabili blönduðu Skoon og ZerQ sér einnig í þessa stórskemmtilegu keppni. Að lokum var það WZRD sem felldi TripleG í 30. lotu til að jafna leikinn og senda hann í framlengingu.
Staðan eftir venjulegan leiktíma: LAVA 15 – 15 FH
Skoon og ADHD opnuðu leikinn í framlengingunni og var LAVA snemma lent í veseni. ADHD náði tveimur fellum með vappanum í síðustu lotunni og DOM rak svo smiðshöggið á leikinn þegar hann felldi Instant. FH hafði því unnið 11 lotur í röð til að tryggja sér sigurinn.
Lokastaða: LAVA 15 – 19 FH
Næstu leikir:
- FH – Breiðablik, laugardaginn 21/1 kl. 18:00
- Ármann – LAVA, laugardaginn 21/1 kl. 19:00
Sýnt verður frá leikjunum í beinni á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.