Fótbolti

Tímabilið búið hjá Jóni Daða

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson verður ekki meira með Bolton á tímabilinu.
Jón Daði Böðvarsson verður ekki meira með Bolton á tímabilinu. James Gill - Danehouse/Getty Images

Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson leikur ekki meira með Bolton Wanderers í ensku C-deildinni á tímabilinu. Selfyssingurinn er á leið í aðgerð á ökkla og því er tímabilinu lokið hjá framherjanum.

Bolton greindi frá þessum tíðindum á Twitter-síðu sinni í dag, en Jón Daði meiddist í leik gegn Portsmouth síðustu helgi. Hann fór þá upp í skallabolta en lenti illa og var tekinn af velli.

Jón Daði hafði átt gott tímabil fyrir Bolton fram að þessu og hefur skorað átta mörk fyrir liðið. Þar af skoraði hann tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum ársins.

„Stundum eru það meiðslin sem líta sakleysislega út sem eru verst og okkar versti ótti hefur verið staðfestur,“ sagði Ian Evatt, knattspyrnustjóri Bolton á heimasíðu félagsins.

„Jón mun missa af restinni af tímabilinu. Hann þarf að fara í aðgerð á liðböndum í ökkla sem sködduðust.“

Bolton situr í fimmta sæti ensku C-deildarinnar með 44 stig eftir 26 leiki. Liðið er í harðri baráttu um að koma sér upp í B-deildina, en efstu tvö liðin fara beint upp og liðin í 3.-6. sæti vinna sér inn sæti í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×