Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Samtaka atvinnulífsins. Þar kemur fram að samningurinn gildi frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Atkvæðagreiðslu félagsmanna lýkur 27. janúar næstkomandi.
Launahækkunin verður að hámarki 66.000 krónur. Ásamt launahækkunum munu kjaratengdir liðir og desember- og orlofsuppbót taka sömu hækkunum eða 6,75%.
Um 3.500 félagsmenn SSF falla undir kjarasamning SSF. Samningurinn er áþekkur þeim kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið síðustu vikur á almennum vinnumarkaði. Þeir hafa verið samþykktir af miklum meirihluta félagsmanna.
„Á undanförnum dögum hefur auk þess verið gengið frá fjölda sérkjarasamninga og fyrirtækjaþátta kjarasamninga eftir stefnumarkandi kjarasamningum SA við stéttarfélög á almennum vinnumarkaði; Brú að bættum lífskjörum,“ segir í tilkynningunni frá Samtökum atvinnulífsins.