Ótímabundnar undanþágur frá verkfallinu frá viðbragðsaðilum í neyðarþjónustu og stofnunum sem gegna lykilhlutverki í samgöngu- og upplýsingainnviðum voru samþyktar á fundi undanþágunefndarinnar í kvöld, að því er segir í tilkynningu á vef Eflingar.
Á meðal þeirra sem sóttu um voru ríkislögreglustjóri, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Rauði krossinn, Strætó, Ríkisútvarpið og vetrarþjónusta Vegagerðarinnar.
Undanþágubeiðnirnar sem voru samþykktar voru um sjötíu talsins. Þremur umsóknum var hafnað og í nokkrum tilfellum var óskað eftir nánari rökstuðningi eða undanþága veitt að hluta.
Nefndin segist funda aftur á morgun til að fara yfir fjölda annarra umsókna, mestmegnis frá smærri aðilum. Í tilkynningunni segir að nefndin hafi átt í samskiptum við Landspítalann og fleiri aðila sem vinni að undirbúningi undanþágubeiðna sem skilað verði inn á næstu dögum.
Verkfall olíuflutningabílstjóra og hótelstarfsfólks í Eflingu hefst að óbreyttu á hádegi á morgun.