Liverpool að blanda sér í Meistaradeildarbaráttuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Virgil van Dijk skoraði fyrra mark Liverpool í kvöld.
Virgil van Dijk skoraði fyrra mark Liverpool í kvöld. Stu Forster/Getty Images

Liverpool stökk upp í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 2-0 sigri gegn Wolves í kvöld. Liðið er nú aðeins sex stigum frá Meistaradeildarsæti og á leik til góða.

Hvorugu liðinu tókst að brjóta ísinn í fyrri hálfleik og staðan var því enn markalaus þegar liðin gengu inn til búningsklefa.

Heimamenn í Liverpool héldu svo að þeir hefðu tekið forystuna á 66. mínútu þegar Darwin Nunez kom boltanum í netið. Eftir nánari skoðun myndbandsdómara kom þó í ljós að heimamenn höfðu brotið af sér í aðdraganda marksins og það því dæmt af.

Heimamenn náðu þó forystunni sjö mínútum síðar þegar Virgil van Dijk skallaði fyrirgjöf Diogo Jota í netið og aðeins fjórum mínútum eftir það var staðan orðin 2-0 eftir mark frá Mohamed Salah.

Ekki urðu mörkin fleiri og niðurstaðan varð því 2-0 sigur Liverpool. Liðið situr nú í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 39 stig eftir 24 leiki, sex stigum á eftir Tottenham sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu, en hefur leikið einum leik meira.

Úlfarnir sitja hins vegar í 15. sæti með 24 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira