Idolið var endurvakið á Stöð 2 síðastliðið haust og fékk þáttaröðin góðar viðtökur. Mikill fjöldi mætti í áheyrnarprufur, tæplega hundrað manns komust áfram í dómaraprufur. Átta manns náðu svo að komast á lokasprettinn sem sýndur var í beinni útsendingu.
Úrslitin réðust í lokaþætti þar sem Kjalar Martinsson og Saga Matthildur kepptu um titilinn.
Þó svo að þáttaröðin hafi klárast í síðasta mánuði er sögu Idolsins hér á landi svo sannarlega ekki lokið.
Eva Georgs. Ásudóttir, yfirframleiðandi Idol, er nefnilega á því að það sé hægt að finna fleiri faldar stjörnur hér á landi.
„Það var ótrúlega gaman að fá tækifæri til þess að kynnast öllu því hæfileikafólki sem tók þátt í Idol í vetur og fylgjast með þeim blómstra en við erum sannfærð um að það leynist enn fleiri stjörnur þarna úti og hlökkum til að taka á móti umsóknum í nýja þáttaröð af Idol,“ segir Eva.
Skráningin í næstu þáttaröð Idolsins er nú hafin, keppendur þurfa að vera á aldrinum 16-30 ára.