Fótbolti

Firmino yfirgefur Liverpool í sumar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto Firmino mun yfirgefa Liverpool þegar samningur hans við liðið rennur út í sumar.
Roberto Firmino mun yfirgefa Liverpool þegar samningur hans við liðið rennur út í sumar. Chloe Knott - Danehouse/Getty Images

Brasilíski framherjinn Roberto Firmino mun yfirgefa herbúðir Liverpool þegar samningur hans við félagið rennur út í sumar eftir átta ára veru hjá félaginu.

Þessi 31 árs gamli framherji hefur verið á mála hjá Bítlaborgarliðinu síðan árið 2015 þegar félagið keypti hann frá Hoffenheim fyrir 29 milljónir punda.

Firmino hefur leikið 353 leiki fyrir Liverpool þar sem hann hefur skorað 107 mörk og gefið auk þess 70 stoðsendingar. Á tíma sínum hjá félaginu hefur hann unnið ensku úrvalsdeildina, Meistaradeild Evrópu, FA-bikarinn, enska deildarbikarinn og heimsmeistaramót félagsliða.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vildi halda Firmino innan raða félagsins, en framherjinn hefur gert upp hug sinn og ætlar sér að leita sér að nýrri áskorun.

Undanfarin misseri hefur Firmino fallið aftar í goggunarröðinni eftir komu Diogo Jota, Luis Diaz, Darwin Nunez og Cody Gakpo til liðsins og því hefur spiltíma hans farið minnkandi. Þá hafa meiðsli einnig sett strik í reikninginn hjá leikmanninum.

Firmino hefur komið við sögu í 26 leikjum í öllum keppnum á yfirstandandi tímabili þar sem hann hefur skorað níu mörk og gefið fjórar stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×