Bylting og barnsburður
Brynhildur Karlsdóttir, pönkari, lagasmiður og söngkonan í Kvikindi, tók að eigin sögn óvart þátt í byltingu í MH fyrr í vetur.
„Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár,“ segir Brynhildur og bætir við: „Ég sópaðist á undarlegan hátt í byltingu menntaskólanema í MH um það leyti sem við vorum að gefa út plötu. Þá var dóttir mín aðeins þriggja mánaða svo við biðum með útgáfutónleikana þar til nú.“
Konfettí sjónarspil
Í fréttatilkynningu frá sveitinni segir meðal annars:
„Kvikindi lofa dansi fyrir allan peninginn, sjónarspili með konfettí og sínu margrómaða rafpoppi sem gagnrýnendur þreytast ekki á að lofsyngja. Kvikindi unnu Kraumsverðlaunin fyrir umrædda plötu, voru tilnefnd til Hlustendaverðlaunanna í fjórum flokkum og komust nýverið á langlista Íslensku tónlistarverðlaunanna.“
Í spilaranum hér að neðan má sjá tónlistarmyndband við lagið Beta, sem sveitin sendi frá sér árið 2020.
Úr Söngvakeppninni í skemmtistaðatrylling
„Þessi plata notaði í mér allar heilasellur sem ég á og fleiri til,“ segir Friðrik tónskáld, útsetjari og óperuskáld. „Við höfum aldrei flutt plötuna í heild og sum lögin munu heyrast í fyrsta skipti í lifandi flutningi.“
Brynhildur Karlsdóttir og Friðrik Margrétar- Guðmundsson stofnuðu Kvikindi árið 2019. Stuttu síðar slóst Valgeir Skorri Vernharðsson trommari með í för en hann kemur beint úr Söngvakeppninni þar sem hann spilaði með Celebs.
„Ég er ótrúlega þakklátur að koma mér aftur í skemmtistaðatrylling þar sem ég á heima,“ segir Valgeir Skorri trommari sem er enn í spennufalli eftir Söngvakeppnina. „Rússíbaninn heldur áfram og við lofum stuði og kærleika.“

Með þeim á tónleikunum er gítarleikarinn Árni Freyr og dansararnir Álfheiður Karlsdóttir og Hugi Einarsson. Þá hafa bleik og græn plaköt fyrir tónleikana vakið athygli en auglýsingaefnið er frumraun Matthíasar Tryggva Haraldssonar í grafískri hönnun. Final Boss Type Zero hitar upp fyrir kvöldið en þeir unnu meðal annars Kraumsverðlaunin í fyrra. Nánari upplýsingar má finna hér.
