Miðlunartillagan gerir ráð fyrir sömu launahækkunum og kveðið er á í samningi annarra félaga Starfsgreinasambandsins, fullri afturvirkni og að þernur á hótelum hækki um launaflokk.
Settur ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillöguna þann 1. mars síðastliðinn og hófst atkvæðagreiðsla á vef ríkissáttasemjara á föstudaginn í síðustu viku. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sagst ætla að greiða atkvæði með tillögunni.
Á vef embættis ríkissáttasemjara kemur fram að kauptaxtar aðalkjarasamnings hækki á bilinu 35 þúsund krónur til 52.258 krónur á mánuði og er meðalhækkun um 42 þúsund krónur. Hlutfallsleg hækkun kauptaxta sé á bilinu 9,5 til 13 prósent og meðalhækkun rúmlega 11 prósent.
„Með tillögunni er stofnað nýtt starfsheiti, Almennt starfsfólk gistihúsa, sem að loknum þriggja mánaða reynslutíma raðast í launaflokk 6.
Mánaðarlaun félagsfólks sem tekur ekki laun samkvæmt kauptöxtum kjarasamnings hækka um 33.000 krónur frá 1. nóvember 2022,“ segir um samninginn.