Fótbolti

Íslendingalið Bayern á toppinn eftir sigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Bayern München unnu gríðarlega mikilvægan sigur í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Bayern München unnu gríðarlega mikilvægan sigur í kvöld. Adam Pretty/Getty Images

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar fyrir stórlið Bayern München er liðið vann gríðarlega mikilvægan 1-0 sigur gegn Wolfsburg í toppslag þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Wolfsburg sat á toppi deildarinnar fyrir leik kvöldsins, aðeins tveimur stigum fyrir ofan Bayern sem sat í öðru sæti. Toppsæti deildarinnar var því undir.

Eins og áður segir spilaði Glódís Perla allan leikinn fyrir Bayern í kvöld, en Sveindís Jane Jónsdóttir kom inn af varamannabekknum fyrir Wolfsburg þegar um hálftími var eftir af venjulegum leiktíma. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sat allan tíman á varamannabekk Bayern.

Það var að lokum Georgia Stanway sem skoraði eina mark leiksins þegar hún kom heimakonum í Bayern í forystu með marki af vítapunktinum rúmum fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.

Niðurstaðan varð því 1-0 sigur Bayern sem lyfti sér upp fyrir Wolfsburg á topp deildarinnar með sigrinum. Bayern er nú með 43 stig eftir 16 leiki, einu stigi meira en Wolfsburg sem situr í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×