Innlent

Ung­menni sem hrelldu íbúa á bak og burt

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ungmennin voru hvergi sjáanleg.
Ungmennin voru hvergi sjáanleg. Getty Images

Lögreglu barst tilkynning um ungmenni sem áttu að hafa verið að hrella íbúa í Mosfellsbæ í nótt með því að banka á glugga og hurðar og taka í hurðarhúna. Ungmennin voru hvergi sjáanleg þegar lögregla mætti á vettvang.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar þar sem fjallað er um helstu verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Einstaklingur mætti sjálfviljugur á lögreglustöðina á Hverfisgötu í nótt og sagði að ráðist hafa verið á sig. Lögregla hafði hendur í hári árásarmannsins sem var handtekinn og vistaður í þágu rannsóknar málsins.

Nokkuð virðist hafa verið um ölvun í miðborginni. Lögregla kannaði ábendingu um unglingadrykkju á skemmtistað sem ekki átti við rök að styðjast. Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu við að vísa manni út af skemmtistað sem var með ógnandi tilburði. Nokkuð var um ólæti og slagsmál auk aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Lögreglu barst tilkynning um nakta konu á svölum í Múlunum í nótt. Þegar lögregla mætti á vettvang var enga nakta konu þar að finna.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem dottið hafði af rafhlaupahjóli miðsvæðis í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×