Líkt og greint var frá á Vísi í vikunni berst Ástrós Una nú fyrir því að fá að halda hundinum Bjarti, en systir hennar, Arndís Halla, var eigandi hans. Hún lést fyrir fjórum árum.
Ástrós og dætur hennar tóku við Bjarti eftir að Arndís lést, og býr fjölskyldan nú í fjölbýlishúsi á Akranesi.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 heimsóttum við Bjart og fjölskyldu. Innslagið má sjá hér að neðan.
Samkvæmt núverandi löggjöf þurfa tveir þriðju eigenda íbúða í fjölbýli að samþykkja hunda eða kattahald, það er þeirra sem deila sama stigagangi eða inngangi.
Ástrós hefur fengið þetta samþykki hjá íbúum í hennar stigagangi, en íbúar sem búa í öðrum stigagangi hafa kvartað yfir hundinum og borið fyrir sig að sameiginlegur inngangur er í kjallara hússins.
Enginn borið fyrir sig ofnæmi né ónæði
Málið er komið fyrir kærunefnd húsamála. Ástrós segist ekki vita ástæðu þess að sumir nágranna hennar séu svo mikið á móti því að hundurinn sé í húsinu, enda noti hann aldrei innganginn i kjallaranum og ekkert ónæði sé af honum.

„Það hefur enginn talað um ofnæmi, enginn talað um ónæði og meira að segja fólk sem býr með mér í stigaganginum hefur spurt mig „er hann hjá þér núna, við verðum ekkert vör við hann?,“ segir Ástrós.
Mæðgurnar segjast ekki geta hugsað sér að Bjartur fari af heimilinu og að það myndi bæta í alla sorgina og söknuðinn sem andlát Arndísar hefur haft í för með sér.
„Ég gæti ekki ímyndað mér að lifa án hans,“ segir Judite Guðbjörg, dóttir Ástrósar. „Að koma heim og hafa ekki einhvern stökkvandi á móti manni.“
Þetta er algjör draumahundur. Hann getur ekki gert neinum mein og er besti vinur allra.