Víðtækar verkfallsaðgerðir félagsfólks BSRB eru hafnar eftir að samningafundi félagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk án árangurs í nótt.
Í tilkynningu sem Samband íslenskra sveitafélaga sendi frá sér nú í morgun kemur fram að sambandið vísi allri ábyrgð á verkfallsaðgerðum á forystufólk BSRB. Ítrekað hafi verið lögð fram ný tilboð sem hafi verið hafnað en það síðasta hljóðar upp á 50 til 60 þúsund króna hækkun lægstu launa.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir ekki standi til að þiggja þann samning því allt strandi á þriggja mánaða hækkun á ársgrundvelli.
„Það auðvitað grípur enginn til verkfalla nema í neyð. Við erum búin að reyna eiga samtal og reyna að rétta þennan kúr síðan í febrúar til að tryggja það að fólkið okkar búi ekki við mismunandi laun samanborið við aðra sem vinna inn á sömu vinnustöðum. Það hefur ekki þokað áfram. En það er auðvitað ekki þannig þegar við eigum í kjaradeilu að einhver einn beri ábyrgð á því.“

Sonja segir mikla samstöðu meðal félagsfólks BSRB um verkfallsaðgerðir sem nú eru skollnar á af fullum þunga. Góð þátttaka hafi verið í atkvæðagreiðslu og afstaða félagsfólks hafi verið mjög skýr þar sem mikill meirihluti kaus með aðgerðum.
„Við finnum núna að það hefur verið mikil reiði og vonbrigði í hópnum yfir þessum mismunandi launum, sem bara eykst með hverjum deginum sem líður. Þau skilja ekki af hverju sveitafélögin grípa ekki til raunverulegra aðgerða til að leiðrétta þetta.“
Gríðarlegur stuðningur frá foreldrum
Verkfallsaðgerðir sem nú eru hafnar hafa víðtæk áhrif á samfélagið allt. Ekki síst foreldra og börn en aðgerðirnar hafa áhrif á um 70 leikskóla.
„Við höfum fundið fyrir gríðarlegum stuðningi af hálfu foreldra sem ég er mjög þakklát fyrir. Við vitum auðvitað að þetta hefur áhrif en það langar engan að vera í verkfalli. En þetta er til að tryggja okkar réttlátu kröfu um sömu laun fyrir sömu störf,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.