Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ákvað í morgun að banna veiðar á langreyð tímabundið til 31. ágúst á grundvelli eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar og áliti fagráðs. Veiðar á vegum Hvals hf. áttu að hefjast á morgun og allt klárt vegna þeirra.
„Manni er smá brugðið við þetta. Sérstaklega hvað ákvörðunin er tekin fljótt án þess að eiga eitthvað samráð eða leyfa fagaðilum að veita einhvers konar andmæli svör við þessari skýrslu fagráðsins,“ segir Vilhjálmur.
Þetta væri mjög stórt inngrip þar sem yfir hundrað manns hefðu verið að gera sig klára og búnir að gera ráðstafanir fyrir sumarið til að starfa í þessari atvinnugrein. Ástæða væri til að efast um að ráðherra hefði lagastoð til að taka þessa ákvörðun.
„Miðað við hvað þetta er stór ákvörðun á skömmum tíma þá óttast maður að svo sé ekki. Ég held að það sé mjög erfitt að taka svona stóra ákvörðun á svona skömmum tíma,” segir Vilhjálmur er í vinnuferð á Spáni.
Margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst mikilli óánægju með þessa ákvörðun ráðherrans í samtali við fréttastofu. Það er því spurning hvort þetta hafi áhrif á stjórnarsamstarfið.
„Það hlýtur að fara svolítið eftir því hvernig verður unnið úr þessu máli. Ég sé að ráðherrann er að opna á það að hún sé að hefja samtal við fagaðila núna og fara betur yfir lagalega stöðu á þessari ákvörðun. Við skulum sjá hvort það gerist ekki bara hratt og vel og hvað kemur út úr því,” segir Vilhjálmur.
Hann geri sér vonir um að hægt verði að hefja veiðarnar áður en tímabundið bann ráðherrans renni úr gildi.
„Ég geri mér vonir um að það sé hægt að leysa úr málunum fyrr. Mun fyrr. Það er nauðsynlegt,” segir Vilhjálmur Árnason.