Enski boltinn

Sér mörk og stoðsendingar í Arnóri: „Þurfum á mörkum að halda“

Aron Guðmundsson skrifar
Það fór vel á með Jon Dahl og Arnóri á dögunum
Það fór vel á með Jon Dahl og Arnóri á dögunum Mynd: Blackburn Rovers

Jon Dahl Tomasson, knattspyrnustjóri Blackburn Rovers, er spenntur fyrir komu íslenska landsliðsmannsins Arnórs Sigurðssonar til félagsins. 

Gengið var frá félagsskiptum Arnórs til Blackburn á dögunum en hann hefur undanfarið verið að gera afar góða hluti með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni. 

„Hann getur spilað á báðum köntum og einnig sem tía eða fölsk nía,“ sagði Jon Dahl í viðtali sem birtist á heimasíðu Blackburn. „Við þurfum á mörkum að halda og ég vona að hann geti lagt okkur lið í þeim efnum, hvort sem það er með mörkum eða stoðsendingum.“

Arnór geti nýst Blackburn á mörgum stöðum í sóknarleik liðsins. 

„Hann er búinn að gera afar vel í sænsku úrvalsdeildinni undanfarið. Ég veit vel að sænska úrvalsdeildin er ekki enska B-deildin en Arnór hefur einnig leikið með íslenska landsliðinu og í Moskvu áður en allir þessir hræðilegu hlutir (innrásin í Úkraínu) áttu sér stað.“

Han telur Arnór vel geta aðlagast ensku B-deildinni. 

„Það mun kannski taka hann tíma, það er eins með hann og alla nýja leikmenn sem koma í deildina. B-deildin er mjög góð deild.“

Markmið Blackburn á komandi tímabili hlýtur að vera gera betur en á því síðasta þar sem að liðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í umspili B-deildarinnar. 

Fyrsti heimaleikur Arnórs með Blackburn í ensku B-deildinni gæti komið þann 5. ágúst næstkomandi en í gær var leikjaniðurröðun deildarinnar, fyrir komandi tímabil, gerð opinber. 

Blackburn hefur tímabilið á heimaleik gegn West Bromwich Albion. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×