Í fréttum Stöðvar 2 var Grímsey heimsótt, nyrsta verstöð Íslands, en þar byggir samfélagið á sjósókn. Sæmundur Ólason er meðal þeirra sem stunda strandveiði sumarsins.
„Maí er yfirleitt mjög lélegur og jafnvel fyrriparturinn af júní. Búið að vera mjög erfitt, bæði út af veðráttu, svo bara vantar fisk á slóðina. Hann er ekkert að ganga hingað fyrr en, eins og ég segi, um miðjan júní. En við kvörtum ekkert,“ segir Sæmundur.

Í Grímsey hafa menn áhyggjur af því að strandveiðikvótinn klárist of snemma.
„Besti tíminn er framundan. Og það er svolítið súrt að heyra að það sé jafnvel bara fyrsta vikan í júlí, og jafnvel ekki. Við vitum ekkert hvenær stoppið kemur.“
Um tíu strandveiðibátar eru gerðir út frá Grímsey. Einnig kemur þangað fjöldi aðkomubáta, sennilega annar eins. Sæmundur segir að í gegnum tíðina hafi þetta einkum verið bátar af Eyjafjarðarsvæðinu, frá Dalvík, Grenivík, Ólafsfirði og jafnvel Siglufirði.

Íbúar Grímseyjar teljast núna 55 talsins. Sjálfur er Sæmundur uppalinn í eynni en segist hafa gert margar tilraunir til þess að fara.
„Ég held ég sé þrisvar sinnum búinn að tæma húsið og farið í burtu. En það er eitthvað sem dregur mig alltaf til baka.
Og ég er hættur að reyna að fara. Ég er bara búinn að gefast upp fyrir því og verð bara hérna,“ segir trillukarlinn Sæmundur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: