Skattayfirvöld tóku nýverið til skoðunar hvort skattleggja ætti áskriftarréttindi í Kviku, sem voru seld starfsmönnum fjármálafyrirtækisins á árunum 2017 til 2019, sem launatekjur en ekki fjármagnstekjur. Niðurstaða í málinu varðar tugi starfsmanna Kviku, jafnvel hátt í hundrað, og leiðréttingin á skattgreiðslum gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna. Innherji fjallaði ítarlega um málið á dögunum:
Kristrún Frostadóttir var aðalhagfræðingur bankans frá árinu 2018 til ársins 2021. Hún nýtti sér áskriftarréttindi fyrir þrjár milljónir króna og hagnaðist um 101 milljón króna á viðskiptunum.
Bað um að fá að staðgreiða
Heimildin birti í morgun frétt eftir að hafa sent Kristrúnu fyrirspurn vegna skattamála í tengslum við áskriftarréttindin.
Í svari sínu segir hún að Skatturinn hafi sent frá sér tilmæli þess efnis að greiða skyldi tekjuskatt af hagnaði af áskriftarréttindum. Hún hafi ekki gert athugasemdir við það mat Skattsins og beðið um að fá að greiða mismuninn strax. Hún hafi þegar greitt 25 milljónir króna í ofanálag við þær 22 sem hún hafði þegar greitt, 46,25 prósent skatt í heildina.
Þá segist hún hafa upphaflega greitt fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum í samræmi við leiðbeiningar frá vinnuveitanda sínum, Kviku banka.