Þegar blaðamaður mætti til vinnu á Suðurlandsbrautina í morgun blasti Esjan við honum til vesturs, en í gær var hún alveg hulin gosmóðu. Þá var greint frá því að veðurfræðingur byggist við áframhaldandi gosmóðu og mengun á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni fram yfir helgi. Ekki er búist við vaxandi suðaustanátt fyrr en á þriðjudag.
Hrafn Guðmundsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að þrátt fyrir að móðan sé vissulega minni í dag en í gær, sé ekkert fararsnið á henni.
Enn sé hæg breytileg átt og búist sé við að gosmóðan verði áfram út um allt, eins og hann orðar það. Í gær náði gosmóðan allt frá Suðurlandi að Norðvesturlandi.
Þá segir Hrafn að nýjasta dreifingarspá bendi til þess að gosmóðan muni leggjast yfir höfuðborgarsvæðið af svipuðum þunga og í gær síðdegis. „En það er ómögulegt að segja, það eru margir hlutir sem spila inn í,“ segir hann.