Enski boltinn

West Ham vill kaupa tvo leikmenn úr frystikistu Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire og Scott McTominay með enska deildabikarinn sem þeir unnu saman með Manchester United á síðustu leiktíð.
Harry Maguire og Scott McTominay með enska deildabikarinn sem þeir unnu saman með Manchester United á síðustu leiktíð. Getty/Matthew Peters

Evrópumeistarar West Ham hafa áhuga á því að kaupa bæði Harry Maguire og Scott McTominay frá Manchester United áður en glugginn lokar.

Lundúnafélagið hefur boðið meira en fimmtíu milljónir punda í leikmennina sem eru í frystikistunni hjá knattspyrnustjóra United. Þetta kemur fram í frétt hjá ESPN.

United hefur þegar hafnað tilboði frá West Ham í leikmennina sem var í kringum tuttugu milljónir punda hvorn en nýjustu fréttir eru að West Ham hafi sent inn í nýtt tilboð fyrir samanlagt í kringum sextíu milljónir punda.

Fabrizio Romano hefur heimildir fyrir því að þrjátíu milljónir punda sé ekki nóg fyrir McTominay og að United vilji enn meira í þennan 26 ára miðjumann.

David Moyes ætlar sér að styrkja West Ham liðið sem hefur efni á því að kaupa leikmenn eftir að hafa selt Declan Rice til Arsenal fyrir meira en hundrað milljónir punda.

Maguire og Scott McTominay eru hluti af leikmannahópi Erik ten Hag en í algjöru aukahlutverki. Maguire missti bæði sætið sitt í byrjunarliðinu og fyrirliðabandið eftir aðeins eitt ár undir stjórn Ten Hag.

Leikmennirnir eru í lykilhlutverki hjá landsliðum sínum, Maguire með því enska og McTominay með því skoska, en það þurfa margir að meiðast ætli þeir að fá alvöru spilatíma með United á komandi tímabili.

Manchester United mun ekki standa í vegi fyrir því að þeir komist í annað félag sem vill nota þá en aðeins ef félagið sætti sig við peninginn sem það fær fyrir þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×