Enski boltinn

Fresta á­kvörðun um Greenwood og bíða eftir ensku lands­liðs­konunum

Sindri Sverrisson skrifar
Forráðamenn Manchester United virðast ekki enn hafa gert upp við sig hvort að Mason Greenwood muni spila aftur fyrir liðið.
Forráðamenn Manchester United virðast ekki enn hafa gert upp við sig hvort að Mason Greenwood muni spila aftur fyrir liðið. Getty/Marc Atkins

Manchester United hefur frestað ákvörðun sinni um framtíð hins 21 árs gamla Mason Greenwood sem ekki hefur æft eða spilað með liðinu frá því að hann var handtekinn í janúar í fyrra, grunaður um líkamsárás og tilraun til nauðgunar.

Ljósmyndir og myndbönd sem gengu á samfélagsmiðlum ýttu undir grun um sök Greenwoods en allar ákærur á hendur honum voru hins vegar felldar niður í febrúar á þessu ári. Ástæðan fyrir því var að lykilvitni dró sig til baka og „ný gögn litu dagsins ljós“.

Forráðamenn Manchester United ákváðu þá að hefja eigin rannsókn vegna leikmannsins, sem síðast spilaði fyrir United í 1-0 sigri gegn West Ham í janúar í fyrra.

Sést hefur til Greenwood æfa einn síns liðs, ekki þó á Carrington-æfingasvæði United, á meðan að vinnuveitendur hans vinna að því að taka ákvörðun um framtíð hans.

The Guardian sagði að United ætlaði að taka ákvörðun fyrir fyrsta leik tímabilsins, gegn Wolves á mánudaginn, en hún liggur ekki enn fyrir.

Samkvæmt The Guardian vilja forráðamenn United ráðfæra sig fyrst við leikmenn kvennaliðs félagsins, sem eru uppteknir á heimsmeistaramótinu í Eyjaálfu. Ensku landsliðskonurnar Mary Earps, Ella Toone og Katie Zelem eiga fyrir höndum leik í 8-liða úrslitum á morgun og ef England vinnur verða þær áfram á HM fram á næstu helgi.

Ákvörðun United mun meðal annars taka tillit til sjónarmiða styrktaraðila og stuðningsmanna, samkvæmt frétt The Guardian, en The Athletic segir hóp stuðningsmanna ætla að sýna í verki á Old Trafford á mánudaginn mótmæli gegn því að Greenwood spili á ný fyrir United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×