Enski boltinn

Talið að varnar­maður Arsenal verði frá næstu mánuði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Meiddist í sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.
Meiddist í sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Clive Mason/Getty Images

Talið er næsta víst að hollenski varnarmaðurinn Jurriën Timber, leikmaður Arsenal á Englandi, verði frá keppni næstu mánuðina eftir að hann fór meiddur af velli í 2-1 sigri á Nottingham Forest í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Timber gekk í raðir Arsenal í sumar og var stuðningsfólk liðsins spennt að sjá hvernig hann myndi bæta Skytturnar. Liðið endaði í 2. sæti á síðustu leiktíð og Mikel Arteta, þjálfari liðsins, lagði mikla áherslu á að bæði auka breidd leikmannahópsins í sumar sem og að finna leikmenn sem myndu henta taktísku uppleggi hans.

Hinn 22 ára gamli Timber var í byrjunarliði Arsenal í 1. umferð deildarinnar en meiddist illa á hné í upphaf síðari hálfleiks. Hann fékk aðstoð við að komast af velli og strax var óttast að um slæm meiðsli væri að ræða.

Arsenal hefur ekki enn gefið út hversu lengi leikmaðurinn verður frá en The Athletic greinir frá að um slæm hnémeiðsli sé að ræða og hann verði frá í nokkra mánuði hið minnsta. Þó knattspyrnutímabilið í Evrópu sé nýfarið af stað hefur verið þónokkuð um hnémeiðsli að undanförnu.

Má sem dæmi nefna varnarmanninn Wesley Fofana hjá Chelsea og hinn sóknarþenkjandi Christopher Nkunku. Emi Buendía og Tyrone Mings hjá Aston Villa slitu báðir krossbönd. Það gerðu Thibaut Courtois og Éder Militão hjá Real Madríd einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×