Enski boltinn

Þrír leikmenn Burnley voru með Haaland sem fyrirliða í Fantasy liðinu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar öðru marka sinna fyrir Manchester City á móti Burnley um síðustu helgi.
Erling Haaland fagnar öðru marka sinna fyrir Manchester City á móti Burnley um síðustu helgi. Getty/Nathan Stirk

Þrír liðsfélagar Jóhanns Berg Guðmundssonar hjá Burnley hafa fengið á sig mikla gagnrýni eftir leik liðsins á móti Manchester City.

Ástæðan er þó ekki frammistaða þeirra inn á vellinum heldur ákvörðun þeirra utan hans.

Þremenningarnir voru nefnilega með Erling Haaland, framherja Manchester City, sem fyrirliða í Fantasy liði sínu.

Reyndar voru 73 prósent spilara í Fantasy leik ensku úrvalsdeildarinnar með Haaland sem fyrirliða. Þetta var líklega ein auðveldasta ákvörðun þeirra sem spila Fantasy í ensku deildinni.

Haaland skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Manchester City á Burnley. Hann hélt því áfram uppteknum hætti frá því á síðustu leiktíð þegar hann setti markamet með því að skora 36 deildarmörk.

Leikmenn Burnley sem voru með Haaland sem fyrirliða í Fantasy fyrir leik á móti þeim sjálfum voru Josh Brownhill, Jack Cork og Arijanet Muric. Enginn þeirra var þó í byrjunarliði Burnley.

Margir hafa hneykslast á þessum fréttum og þetta hefur líka ýtt undir vangaveltur um það að banna ætti leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni að spila Fantasy alveg eins og þeim er bannað að veðja á sína leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×