Sýning Ýrúrarí ber titilinn Nærvera. Þar leikur hönnuðurinn, sem heitir réttu nafni Ýr Jóhannsdóttir, sér með mörk búninga og hversdagsklæðnaðar. Undanfarin ár hefur sjálfbærni og endurvinnsla verið meginatriðið í verkunum, sem eru aðallega unnin með efnivið sem safnast upp á endurvinnslustöðvum.

Í smiðjunum tveimur, sem haldnar verða sunnudagana 20. og 27. ágúst frá klukkan 13, verður frítt inn og efniviður til viðgerða verður í boði á staðnum en þátttakendur mega gjarnan koma með eigin efnivið, að því er segir í tilkynningu um þær.
Húmorinn og leikgleðin að leiðarljósi
Á sýningunni gefur að líta nýjar peysur eftir Ýrúrarí. Ferlið byggist á tilraunum með fjölbreyttar aðferðir og útfærslur sem veita ósöluhæfum peysum úr endurvinnslustöðvum sterkari nærveru svo þær haldist í notkun um ókomna tíð.

Í anda fyrri verkefna Ýrúrarí eru peysurnar unnar á húmorískan hátt með leikgleði að leiðarljósi. Markmiðið er að lífga upp á hversdaginn og lengja líftíma fatnaðar sem við eigum nú þegar.
Verk eftir Ýrúrarí má meðal annars finna í ýmsum spennandi fataskápum en einnig í safneignum Textiel Museum í Hollandi, Museum für Kunst und Gewerbe í Hamborg, Museum of International Folk Art í Nýju Mexíkó, National Museums of Scotland og Hönnunarsafni Íslands.