Fótbolti

Öruggir útisigrar hjá Brighton og Brentford

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brighton vann öruggan útisigur gegn Wolves í dag.
Brighton vann öruggan útisigur gegn Wolves í dag. Clive Mason/Getty Images

Brighton og Brentford unnu örugga útisigra er liðin mættu til leiks í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Brighton vann 4-1 sigur gegn Wolves þar sem Kaoru Mitoma sá til þess að gestirnir í Brighton fóru með 1-0 forystu inn í hálfleikinn. Eitt mark frá Pervis Estupinan og tvö frá Solly March með stuttu millibili snemma í síðari hálfleik gerðu svo að mestu leyti út um leikinn áður en varamaðurinn Hwang Hee-chan náði inn einu sárabótarmarki fyrir Úlfana.

Brighton tyllir sér því í það minnsta tímabundið á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sex stig eftir tvo leiki, en Úlfarnir eru enn án stiga.

Í leik Fulham og Brentford kom Yoane Wissa gestunum yfir á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Bryan Mbuemo tvöfaldaði svo forystuna með marki af vítapunktinum eftir að Tim Ream nældi sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á Yoane Wissa innan vítateigs. Mbuemo var svo aftur á ferðinni þegar hann innsiglaði endanlega sigur Brentford með marki í uppbótartíma og niðurstaðan varð 3-0 sigur gestanna.

Eftir sigurinn er Brentford með fjögur stig eftir fyrstu fjóra leikina, einu meira en Fulham sem er með þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×