Fótbolti

Hætta við að fá Paqueta eftir á­sakanir um brot á veð­mála­reglum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lucas Paqueta er ekki á leið til Manchester City.
Lucas Paqueta er ekki á leið til Manchester City. Clive Rose/Getty Images

Eng­lands­meistarar Manchester City eru hættir við að reyna að fá miðju­manninn Lucas Paqueta til liðs við sig frá West Ham eftir að upp­lýst var um að leik­maðurinn sætir nú rann­sókn vegna mögu­legra brota á veð­mála­reglum enska og Al­þjóða­knatt­spyrnu­sam­bandsins, FIFA.

City og West Ham höfðu komist að samkomulagi um að Englandsmeistararnir myndu kaupa leikmanninn á 80 milljónir punda, sem samsvarar um 13,5 milljörðum króna.

Eftir að tilkynnt var um að leikmaðurinn sæti rannsókn fyrir brot á veðmálareglum ensku úrvalsdeildarinnar er nú orðið ljóst að ekkert verður af vistaskiptum Brasilíumannsins.

Heimildarmenn Sky Sports segja þó frá því að enn sé möguleiki á því að Paqueta færi sig frá West Ham yfir til City þegar félagsskiptaglugginn opnar á nýjan leik í janúar á næsta ári.

Samkvæmt fréttamiðlum í Englandi, þar á meðal Sky Sports, ku Paquetá hafa brotið veðmálareglur er hann lék enn í heimalandi sínu Brasilíu. Leikmaðurinn neitar sök.

Rannsóknin hófst hins vegar þegar óvenju margir veðjuðu á það að Paqueta myndi fá gult spjald í viðureign West Ham og Aston Villa í mars á þessu ári. Leikmaðurinn nældi sér einmitt í spjald í þeim leik er hann braut á John McGinn á 70. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×