Enginn sportveiðimaður og fullviss um stuðning Íslendinga Kolbeinn Tumi Daðason skrifar 20. september 2023 15:02 Kristján Loftsson varð áttræður í mars. Hann er hvergi banginn, ætlar að berjast fyrir málstað sínum og er sannfærður um að þorri Íslendinga sé með honum í liði. Vísir/Vilhelm Kristján Loftsson, forstjóri og stærsti eigandinn í Hval hf., er sannfærður um að íslenskt samfélag standi með honum í baráttunni fyrir áframhaldandi hvalveiðum. Ekki megi taka hvalveiðar út fyrir sviga heldur þurfi að skoða hlutina í samhengi. Jafnvel kíkja í sláturhúsin til samanburðar. Hann kann vel að meta gott hvalkjöt en er enginn sportveiðimaður enda fari hann aldrei til veiða. Kristján leit við á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar á Suðurlandsbraut í dag og ræddi stöðuna sem upp er komin og hvalveiðar í heild. Hvalveiðivertíðin hófst að hausti í ár vegna þess að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra frestaði vertíðinni til að gæta velferðar dýra. Eftirlit Matvælastofnunar með veiðum Hvals hf. í fyrra leiddi í ljós að aflífun dýranna hefði tekið of langan tíma. Þegar kom að 1. september setti ráðherra nýja reglugerð sem Hval hf. var skylt að uppfylla við hvalveiðar. Í framhaldinu voru mótmæli í á annan sólarhring í möstrum hvalveiðiskipa félagsins í Reykjavíkurhöfn áður en fyrirtækið hélt loks til veiða á hvalveiðiskipum sínum Hvali 8 og Hvali 9. Fyrsti hvalurinn sem veiddist á Hval 8 þann 7. september var ekki aflífaður fyrr en 29 mínútum eftir að hann var hæfður í fyrra skiptið. Matvælastofnun er með eftirlit um borð, tók málið til skoðunar og tilkynnti þann 14. september að hvalveiðar á Hval 8 hefðu verið stöðvaðar tímabundið. „Við veiddum þennan hval 7. september. Síðan erum við búnir að veiða sex hvali í viðbót, þá loksins senda þau okkur þetta bréf. Að þau væru að spá í að stoppa skipið. Við fengum nær engan andmælarétt. Voru nær heilan dag að koma þessari spólu til okkar. Eftir að hafa legið yfir þessu í viku að skoða þetta myndband. Þetta er algjörlega fráleit stjórnsýsla,“ segir Kristján. Hann segir alveg skýrt að bilun í spili á skipinu hafi gert það að verkum að ekki var hægt að aflífa hvalinn fyrr. Óhöpp geti alltaf gerst. „Ef þú verður fyrir svona skakkaföllum eins og það slitnar eða losnar krókur og slæst í hlíf á spilinu og stoppar það algjörlega þá er auðvitað ekki gert ráð fyrir því í reglugerð. Það er bara gert ráð fyrir að ef eitthvað fer úrskeiðis þá sé það lagað og svo haldið áfram. Þeir taka þetta þannig og segja í textanum sem þeir senda okkur að þótt spilið hafi verið úr leik þá hefði það ekki skipt neinu máli. Það hafi verið mörg tækifæri til að skjóta hvalinn,“ segir Kristján. Hann segir myndbandinu á vissan hátt blekkja þegar þysjað sé inn. „Ef þú zoomar inn þá sýnist hann (hvalurinn) vera mjög nálægt skipinu, en það er það sem ruglar þetta lið algjörlega í ríminu. Og á þessu er þetta byggt, eingöngu þessu.“ Að neðan má sjá upptöku frá veiðunum þar sem Hvalur 8 þurfti að skjóta tvisvar til að aflífa hvalinn. Hvalur 8 er enn í straffi en Kristján reiknar með því að Hvalur 9 haldi til veiða á ný síðar í dag. Hann segir mikið af hval fyrir sunnan Ísland. Hvert hvalveiðiskip getur veitt tvo hvali áður en halda þarf til hafnar á ný til að verka kjötið. Kristján segir óvíst hvort og hvenær Hvalur 8 fari aftur út. Varla á þessari vertíð. „Hann liggur í Hvalfirði. Ég veit ekkert. Ætli við fáum ekki bréf frá þeim á aðfangadag? Ég hef ekki hugmynd um það.“ Kristján segir fyrirtækinu nýverið hafa borist langur spurningalisti með hinum ýmsu spurningum, mörgum hverjum sem beri þess merki að lítill skilningur sé á hvalveiðum. „Hefðu þau sent okkur allar þessar spurningar áður þá hefðum við ekkert þurft að standa í þessu. Þau skilja ekkert gang málanna. Nú koma þau og spyrja okkur spurninga, langan lista. Ég veit ekki hvort þau skilji það heldur. Það er enginn þarna innandyra, eftir því sem ég best veit, og Árni Sverrisson formaður skipstjórafélagsins benti á, sem veit nokkuð um sjósókn. Þetta er skelfilegt fyrir atvinnulífið,“ segir Kristján. Árni var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Aðspurður hvort það geti verið að í svo fjölmenni stofnun hafi enginn reynslu af sjósókn er Kristján ekki í nokkrum vafa. „Ég er alveg sannfærður um það. Ég vil fá að sjá þann mann og hitta hann. Sem veit eitthvað um sjósókn á þessari Matvælastofnun. Svo nota þau þessi svokölluðu dýraverndunarlög. En í þeim eru undanþegin að okkar mati veiðar og föngum á villtum fiski. Ef þú lest þessi lög þá snýst það allt um búfénað. Veiðar á villtum dýrum eins og hvalurinn er er undanþeginn að okkar mati. Þau segja nei. Í þessu stendur stappið.“ Hver er tíminn? Eftirlit Matvælastofnunar í fyrra benti á að fjórða hvern hval hefði þurft að skjóta oftar en einu sinni. Kristján var spurður hvort það væri eðlilegt hlutfall. „Ég get ekkert alhæft. Stundum er hvalurinn hálfdauður og menn skjóta hann bara aftur til að vera öruggir. Þá eru komnir tveir skutlar í hann. Til að vera fljótir að þessu. Hvað er ásættanlegur tími? Það veit það enginn. Það er hvergi skrifað niður. Menn geta haft hvaða skoðun á því sem þeir vilja. Þetta er bara hluti af dylgjum hjá þessu liði og MAST gengur fram fyrir skjöldu. Segir að samkvæmt anda þessara dýraverndunarlaga sé þetta alltof langur tími. En hver er tíminn? Ef þú myndir spyrja þau að því þá færðu ekkert svar því það er ekki neinn tími til. Við gerum þetta eins hratt og við getum en svo geta hlutirnir farið úrskeiðis. Það er í öllu og hverju sem þú nefnir.“ En ætli skytturnar í gamla daga hafi verið betri? „Æfing gerir það að verkum að menn eru búnir að ná betri tökum á hlutunum þegar menn eru búnir að vera í mörg ár. En síðan eru þeir sem eru hjá okkur núna mjög góðir skotmenn.“ Bíða eftir umboðsmanni Kristján var spurður að því hvort Hvalur hyggðist leita réttar síns vegna frestunar vertíðar með skömmum fyrirvara í vor. „Við erum að bíða eftir áliti umboðsmanns Alþingis sem kemur örugglega í október/nóvember. Í svona atburðarás skoða allir alla hluti. Þeir í Brim fóru í það að kíkja á þetta með Samkeppniseftirlitið og matvælaráðuneytið. Guðmundur Kristjánsson er ekkert feiminn. Hann fór bara í þetta og hefur haft algjört ippon í þessu,“ segir Kristján. Ippon er orð yfir fullnaðarsigur í bardagaíþróttum. „Við hugsum okkar gang og svo sjáum við næstu skref. Menn eru oft að útvarpa hvað þeir ætla að gera en svo heyrist ekkert meira. Við höfum ekki verið á þeirri bylgjulengd.“ Svandís hegði sér eins og Stalín Hann er ekki sáttur við framgöngu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. „Þetta er náttúrulega stjórnsýsla fyrir neðan allar hellur. Þetta er svona Stalínista stjórnsýsla eins og var hjá Stalín í gamla daga. Hann hélt réttarhöld, lét ákveða eitthvað og svo voru menn teknir af lífi. Við erum reyndar ekki skotnir en okkur er haldið í landi í tvo mánuði til að gera þessa vertíð algjörlega ómögulega. Það verður ekkert úr henni fyrir vikið. Þetta er svipað stjórnarfar sem er veri að innleiða hérna af þessum Vinstri grænum. Það hlýtur að vera krystal klárt flestum þeim sem að stúdera það.“ Kristján er grjótharður Sjálfstæðismaður, á góða vini í flokknum og hefur verið verðlaunaður af ungum Sjálfstæðismönnum fyrir framgöngu sína. Hvernig ætli honum finnist samflokksflokkur VG í ríkisstjórn, hans eigið fólk í Sjálfstæðisflokknum, standa sig? Hvalur hf fékk frelsisverðlaun ungra Sjálftstæðismanna árið 2018 fyrir baráttu sína fyrir hvalveiðum á Íslandsmiðum. „Hvalveiðar fela í sér mikilvægt atvinnufrelsi en Hvalur hf. hefur í fjölmörg ár barist fyrir því að veiðar á hvölum séu leyfðar, enda er um sjálfbæra nýtingu að ræða sem styðst við vísindaleg gögn.“ „Þeir eru að reyna að malda í móinn en einhvern veginn virðist stjórnarráðið lagt þannig upp að ráðherra segir: „Þetta er minn málaflokkur. Ég ræð hér.“ Hún hreyfir sig aldrei fyrr en Alþingi er farið heim. Þá byrjar hún í reglugerðarstandi. Þá keyrir hún þetta allt í gegnum reglugerðir, leggur ekki fram frumvarp. Þetta er að mínu mati Stalínista stjórnsýsla.“ Kristján segir hvalveiðiskipin hafa skotið fimmtán langreyðar það sem af er mánuði. Það sé ágætt miðað við það veður sem hafi verið í boði. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu voru fjórtán langreyðar dregnar til hafnar en línan slitnaði í einni langreyðinni. „Þetta snýst allt um veður. Ef veðrið er gott þá gengur vel. Ef það er bræla þá erum við bara í landi. Það þýðir ekkert að vera að þrusa hér úti. Það er hvalur þarna á svæðinu þannig að það er ekki málið.“ Stefnir ótrauður á veiðar að ári Óðum styttist í lok vertíðar, sem er nýhafin. Kristján segir um 150 manns starfa í bransanum; á skrifstofunum í Hafnarfirði, Hvalfirði og á bátunum. Kristján Loftsson fer aldrei sjálfur á sjóinn. Hann er sonur Lofts Kristjánssonar sem var á fullu í hvalveiðum áður en Kristján tók við keflinu.Vísir/Vilhelm „Við verðum aldrei lengur en fram í lok september. Þetta fer eftir veðri og mannskapurinn okkar er með önnur áform. Við verðum orðnir fáir. Svo er komið svo mikið myrkur mánaðamótin september/október. Nema það sé sérstaklega gott veður. Sem hefur komið fyrir. En þú veiðir ekki 160 hvali. Það er enginn vandi að veiða þá og sökkva þeim ef það er það sem menn vilja. En það er nú ekki galsinn í þessu. Menn reyna að koma þessu í land og nýta eins og hægt er.“ Hann vonast til að geta flutt tuttugu prósent af ónýttum kvóta á milli ára, eins og heimild er fyrir í sjávarútveginum. Þar ræður þó miklu hvort Hvalur hf. fái leyfi til veiða á næsta ári. Fimm ára heimild fyrirtækisins til veiðanna rennur út um áramót. Kristján segir Hval hf. ætla að sækja um nýja heimild til veiða. „Já, allur okkar búnaður er gíraður inn á hvalveiðar og vinnslu hvalaafurða. Þannig að það liggur alveg fyrir.“ Gengi vel ef Hvalur fengi frið Kristján hefur tekið eftir umræðu þess efnis að hann sé einfaldlega sportveiðimaður. Þetta sé tómstundagaman enda lítill hagnaður af veiðunum undanfarin ár. „Þeir eru að reyna að koma þessu inn, þetta antíhvalalið, að hvalveiðarnar séu sport hjá mér. Ég fer aldrei sjálfur út á sjó. Sportveiðimenn eru alltaf í laxveiðiánum sjálfir en þetta er atvinnuvegur þar sem þú ræður aðra í verkið. Þetta gæti gengið ágætlega ef við hefðum einhvern frið,“ segir Kristján. Hann staldrar við baráttu Hvals fyrir veiðum undanfarinn áratug eða svo. „Við vorum með bráðabirgðaleyfi til að vinna í mörg ár út af þeirra túlkun á ýmsu. Svo sögðu þau að við þyrftum að sækja um fullnaðarleyfi og það tók þá þrjú ár að afgreiða það. Það komu spurningar og spurningar, við svöruðum þeim. Svo þegar þeir fóru eftir þrjú ár að spyrja sömu spurninganna aftur sem við höfðum svarað árið 2018 þá sendum við stjórnsýslukæru í matvælaráðuneytið að þetta gengi ekki. Þá kom leyfið um leið. Ráðuneytið fyrir rest tók stjórnsýslukæruna fyrir og gaf þeim orð í eyra. En ég veit ekki hvort þeir hafi fengið stöðuhækkun sem komu nálægt þessu. Mér sýnist ekki hafa fækkað þessu fólki sem var með þennan leikaraskap við okkur.“ Félagið hefði skilað hagnaði hefði það fengið að starfa í eðlilegu umhverfi undanfarinn áratug. Skipafélögin stundi aðskilnaðarstefnu „Já. Auðvitað er í öllum rekstri alls kyns hlutir sem gerast. Gengi gjaldmiðla og ýmislegt annað. Mörg fyrirtæki eru ekki í gróða. Hér á Íslandi er verið að sækja stíft á fyrir ykkur, að ríkisstjórn styrki fjölmiðla. Það er af því það virðist ekkert út úr því að hafa. Ríkissjóður er þá að borga kaupið þitt. Þú verður að taka þetta allt í samhengi.“ Hann segir fyrirtækið nær eingöngu selja hvalkjöt til Japans. „Við erum í sambandi vði eitt fyrirtæki sem hefur tekið þetta sem fór í fyrra og verður áfram. Ágætismenn þarna í Japan. Það er ekki vesenið að selja þetta. Það er aðeins flóknara að senda þetta því skipafélög í Evrópu, ef þeir hafa tvo fjörutíu feta frystigáma - einn með hvalaafurð í en hinn með fiskinn - þá skilja þeir hvalinn eftir og taka fiskinn. Þeir eru hræddir um að antíliðið banki upp á og fari að djöflast í þeim. Þeir reka svona nokkurs konar apartheid (innskot blaðamanns: aðskilnaðarstefnu), eins og Mesk skipafélagið danska. Þeir segjast ekki flytja afurðir af hvölum ef þær eru veiddar í viðskiptasamhengi. Þess vegna höfum við farið í að leigja skip og senda beint til Japan. Þá þarftu að hafa dálítið magn til þess.“ Hvalkjötið sé allt borðað í Japan. „Það er hrátt og unnið og svona. Það er eftirspurn eftir því. Að magni til miðað við það sem við sendum í fyrra erum við með meira magn en Japanirnir veiða sjálfir.“ Borðar hvalkjöt af og til Þá segir Kristján hvalinn líka vinsælan hér á landi. „Aðalvaran hérna er rengi eða það sem margir kalla súrhval. Þú verður að skjóta hvalinn til að geta unnið rengið. Þú býrð það ekki til í einhverjum prentara eins og farið er að prenta fisk og grænmeti. Tel ég að sé ekki hægt. Það er mjög vinsælt. Við tökum af hvalnum það sem við getum. Það er ekki alveg hægt að taka af öllu. Ef þeir eru mjög stórir þá verður þetta svo gróft. En við göngum nálægt þessu eins og við getum því það er mikil eftirspurn. Fólki finnst þetta gott, rengið. Sem er séríslensk afurð.“ Kristján kann að meta hvalkjöt. „Ég borða hann af og til. Ekki í hvert mál svo sem. En mér finnst hvalkjöt mjög gott, og rengi.“ Fullur efasemda með undirskriftir vestanhafs Aðspurður um athugasemdir Leonardo Di Caprio og fleiri nafntogaðra aðila í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood, sem hafa hótað að hundsa Ísland verði ekki látið af hvalveiðum, segir Kristján það ekki halda fyrir sér vöku. „Nei. Þetta er bara stormur í vatnslgasi. Í gamla daga þegar mestu lætin voru í kringum hvalina og margir að lýsa yfir andstöðu þá komu svona bréf. En það voru allir sem skrifuðu undir þetta með eigin hendi. Í dag er það tölva sem skrifar þetta út. Hafið þið hér á Stöð 2 kannað hvort það sé eitthvað í þessum mótmælum hjá þessu fólki? Er þetta bara tekið á face value, eins og sagt er á ensku, þetta hlýtur að vera rétt - út með þetta. Ef þið eruð í rannsóknarblaðamennsku þá ættuð þið að kanna þetta líka.“ Norðmenn hafi ekki hlustað á slíkar raddir frá Hollywood. „Större forsætisráðherra sagði að þeir myndu ekki hlusta á einhverja Hollywood kalla. En ríkisstjórn Íslands þegir þunnu hljóði.“ Rafmagn þurfi að þróa áfram Í nýrri reglugerð um hvalveiðar er tekið fyrir notkun rafmagns. Kristján segir sprengjurnar sem nú séu notaðar ágætar. „Þær eru það besta sem þekkt er. En þetta dæmi sem við byrjuðum að tala um þá fór það ofarlega í hausinn á honum. Þess vegna tók þetta þennan tíma. Spilið gerði útslagið,“ segir Kristján og vísar til þess þegar tæpan hálftíma tók að aflífa hvalinn 7. september. „Ef þú vilt hafa einhverja þróun þá þarftu að prófa og þróa áfram það sem menn hafa horfið frá,“ segir Kristján og snýr sér að rafmagninu. „Rafmagn var notað í Suður-Íshafinu af Bretum og Norðmönnum fyrir sirka sjötíu árum síðan. Þá voru þeir að vefa kopar inni í skutlinum. Svo voru þeir með rafmagnsgræjur um borð. Einn póllinn var í sjónum. Miklu frumstæðari græjur en eru í dag. Þeir drápu um tvö þúsund stórhvali með þessu.“ Hvalirnir hafi almennt flotið en þó komið upp að þeir sukku, því það var ekkert loft í þeim. Þá hafi komið átak á skotlínuna. Rafmagn myndi tryggja dauða á tíu sekúndum „Þeir þurftu að hífa hann upp úr djúpinu til að ná honum að síðu skipsins. Svo hlóðu þeir aftur en þá var koparlínan farin í sundur. Þeir gátu ekki leyst þetta. Þurftu alltaf að skipta um og skipta um. Þeir gáfust á þessu. Línan var ekki nógu örugg til að geta flutt rafmagnið svo þetta gengi smurt fyrir sig.“ Hvalur hf. hafi látið útbúa línur með kopar sem er fléttaður inn í efnið, sem er gerviefni. „Það er meiri teygja í koparnum en teygist á sjálfri línunni, sem er ekki mikið sem teygist. Þetta er svo sterkt. Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta mun ekki verða Akkilesarhæll í þessu. Þetta er hugsað þannig að hvalurinn fái í sig 26 amper í tíu sekúndur. Við það að hjartað stoppar þá er heiladauði strax. Þannig að þetta er mjög áhrifaríkt og með sprengjunni þá hefðu allir þessir hvalir sem þurfti að umskjóta orðið steindauðir um leið. Eg er ekki í nokkrum vafa um það.“ Kristján vill svo, þegar komin sé reynsla á notkun rafmagns, að hvalir verði eingöngu drepnir með rafmagni. „Það er það sem ég er mest spenntur fyrir. Sprengjuefni er alltaf hættulegt. Ef þú kaupir rakettu á gamlársdag.. ef þú ferð eftir leiðbeiningum þá gerist ekki neitt. En ef þú ert að fikta, gerir eitthvað vitlaust, þá slasarðu þig á þessu.“ Það yrði mikil bót að losna við sprengjuhættuna. Minnir á slátrun sauðfés „Með rafmagninu væru engar sprengjur lengur. En þá kemur stimplaelítan og segir: „Nei nei nei þetta er tilraun“.“ segir Kristján og honum sé sagt að sækja um eins og ég væri með einhverja rottu í tilraunastöð. „Þetta er áframhaldandi þróun á aðferð sem var reynd á sínum tíma en gekk ekki út af þessu. Svo er galað hér á Íslandi af ráðamönnum. Þróun, þróun, þróun, þróa nýtt. Ausa fé í þetta endalaust. En svo þegar við komum þá þarf að sækja um hér og þið fáið kannski svar við því árið 2025. Veistu, þetta er mjög undarlegt umhverfi sem þú ert í hér í dag, atvinnulífið á Íslandi. Sérstaklega stimplaelítan sem er grasserandi hér um allt land og fækkar ekki í.“ Hann hvetur fólk til að horfa á hlutina í víðara samhengi. Kristján ekur um á bíl sem einkanúmerinu G21 sem karl faðir hans var með á sínum tíma. G vísar til Gullbringusýslu.Vísir/Vilhelm „Fólk hefur skoðanir og má hafa hvaða skoðanir sem það vill. Settu þetta í samhengi við eitthvað annað. Það þýðir ekki að horfa á svona einstakt tilfelli,“ segir Kristján. Hann spyr hvort fólk sé almennt upplýst um hvernig sauðfé sé slátrað? „Mér er tjáð að rafmagnskaut sé sett á hausinn á kindinni og hún fer í heilastopp. Síðan er henni ýtt út úr klefanum, hengd upp á afturlappirnar og skorin á háls. Svo kemur næsta, næsta og næsta. Ef eitthvað fer úrskeiðis, þetta eru færir menn og ég efast ekki um að þeir gera sitt besta, en ef eitthvað fer úrskeiðis þá rankar hún við sér aftur. Rafmagn er notað víða í sambandi við aflífun. En það halda margir að það sé slátrað með byssu í sláturhúsi. En það er ekki þannig í dag.“ Á undanþágu svo Pétur og Páll finni þá ekki Fram hefur komið að Hvalur gefur ekki upp staðsetningu á skipum sínum eins og flest ef ekki öll önnur skip og bátar á Íslandi. Kristján vísar til heimildar til þess. „Ég hafði samband við Landhelgisgæsluna og óskaði eftir því að við fengjum að hafa slökkt á því að Pétur og Páll gætu séð nákvæmlega hvar við værum. Við sendum á þeim tímafresti sem þeir óska eftir til stjórnstöðvar svo þeir vita nákvæmlega hvar við erum,“ segir Kristján. Fyllsta öryggis sé gætt og það sé raunar ástæðan fyrir því að hver sem er geti ekki nálgast staðsetninguna. „Hér voru í fyrra skip að elta okkur. Í tvo mánuði í fyrrasumar var eitthvert skip gert út frá Hollandi, skráð í Panama eða einhvers staðar, á eftir okkur í humátt. En þeir höfðu aldrei árangur sem erfiði því þeir fundu okkur ekki svo glatt. Lágu í minni Hvalfjarðar og fylgdu okkur. En við höfðum heldur meiri orku en þeir og gátum snúið þá af okkur. Þeir höfðu aldrei árangur sem erfiði. Þetta gerum við meðal annars til að varna því að við séum með einhverja gangstera og terrorista sem eru að elta okkur að gera okkur mein. Því þú veist ekkert hvað þessu fólki dtetur í hug. Þetta eru terroristar af fyrstu gráðu og þeir valsa hér um og þið fréttamenn margir hverjir eru mjög hrifnir af þessu fólki.“ En myndi Kristján hvetja aðra til að veiða hvali? Vill hann samkeppni eða er gott að sitja einn að hvalveiðum hér á landi? „Það er helvíti dýrt að setja þetta í gang eins og er í dag. Já já, það geta fleiri verið í hvalveiðum en við. En þetta myndi kosta mjög mikið miðað við allt regluverkið sem er í kringum þetta. En stofnanir þola meiri veiði en við veiðum í dag. Öll þessi líkön sem reikna þetta út, fjörutíu þúsund dýr í kringum landið. Kvótínn 160 hvalir. Um þetta hefur verið samið í alþjóðahvalveiðiráðinu. Hugmyndin að þessum módelum eins og ég skil þetta er að það sé ekki nokkur möguleiki að þú getir útrýmt hvali næstu 3000 árin. Þess vegna er þetta svona íhaldssamt.“ Hvalurinn og loftslagsvandinn Þá heldur hann á lofti umræðu undanfarnar vikur þar sem fullyrt hefur verið að hvalveiðar hjálpi til við loftslagsvandann. „Allar greinar sem ég hef séð, þær byggja á því að kúkur og piss frá hvalnum í hafinu sé svo svakalega mikilvægur, sem hann er. En í þeirra greinum sleppa þeir því þegar hvalurinn blæs. Þaðan kemur koltvísýringur. Ef þú dregur frá kúk og pissa þá er það helmingurinn af því sem hann blæs. Þetta er svakalegt magn og hjálpar ekki upp á andrúmsloftið, ef það er eitthvað að marka þessar kenningar. Allar þessar greinar sem ég hef séð þar sleppa þeir því að hvalurinn er að blása. Af því þeir eru að skrifa fyrri einhvern tiltekinn málstað.“ Þessu hefur verið mótmælt af fjölda vísindamanna. Þar á meðal Hilmari J. Malmquist líffræðingi og forstöðumanni Náttúruminjasafns Íslands. Kristján er nýorðinn áttræður. Hann hefur engar áhyggjur af því að hvalveiðum ljúki þegar hann láti af baráttu sinni. „Ég hef engar áhyggjur af því. Það er fullt af fólki til. En þetta er ekkert fjölskyldufyrirtæki og það eru ansi margir hluthafar. Ég og systir mín eru stærstu hluthafarnir. Þegar Hvalur var stofnaður 1947 þá voru hátt í hundrað hluthafar sem var mjög óalgengt á þessum tíma. Menn í útgerð, skipstjórar á togurum og ýmislegt. Með tímanum hafa menn selt og aðrir komið inn. En Hvalur er hlutafélag með mörgum hluthöfum. Þetta er alltaf eignað mér en það er algjör misskilningur,“ segir Kristján. Sannfærður um að samfélagið standi með hvalveiðum Hann horfir björtum augum fram á veginn. Með fyrirvara þó. „Ég sé framtíðina bjarta ef við erum látnir í friði af þessari stimplaelítu. Þetta snýst um það. Þeir eru allir á eftir okkur, alveg á fullu. Það sést ef þú rýnir í þetta í friði og ró þá sérðu hvernig þetta er hugsað.“ Hann er ekki á þeim buxunum að láta af baráttu sinni. Hann standi áfram og berjist fyrir málstað sínum. „Já, er ekki alltaf að koma yngingarlyf og svona? Nei, ég er ekkert smeykur.“ Hann er sannfærður um að meirihluti landsmanna sé með honum í liði. „Samfélagið er með okkur. Ég verð ekki var við annað. Fólk stoppar mig úti á götu og spyr, vill endilega fá rengi. Fyrir þorrablótið. Fólk sem ég þekki ekki neitt. Ég er sannfærður um að almenningur stendur algjörlega með okkur.“ Hvalveiðar Sjávarútvegur Stjórnsýsla Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur Mest lesið Skip úr skuggaflotanum hægði grunsamlega mikið á sér Erlent Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Innlent Komu hesti til bjargar úr gjótu Innlent Margt bendi til að Rússar hafi haft aðkomu að flugslysinu Erlent Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Innlent Reyndu að ræna hraðbanka Innlent Slóvakar vilja hýsa friðarviðræður Rússlands og Úkraínu Erlent Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Innlent Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Innlent Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Innlent Fleiri fréttir Reyndu að ræna hraðbanka Komu hesti til bjargar úr gjótu Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Áfram töluverð snjóflóðahætta á Vestfjörðum Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Snjóflóðahætta á Vestfjörðum og frumsýning Yermu Holtavörðuheiðinni lokað aftur í kvöld Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Jólakindin Djásn á Stokkseyri Standa vaktina á jóladag: „Þetta er bara eins og hina dagana“ Standa vaktina við lokunarpósta á jóladag Flugferðir hafnar að nýju í Keflavík Þak fauk nánast af hlöðu Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Sjá meira
Kristján leit við á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar á Suðurlandsbraut í dag og ræddi stöðuna sem upp er komin og hvalveiðar í heild. Hvalveiðivertíðin hófst að hausti í ár vegna þess að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra frestaði vertíðinni til að gæta velferðar dýra. Eftirlit Matvælastofnunar með veiðum Hvals hf. í fyrra leiddi í ljós að aflífun dýranna hefði tekið of langan tíma. Þegar kom að 1. september setti ráðherra nýja reglugerð sem Hval hf. var skylt að uppfylla við hvalveiðar. Í framhaldinu voru mótmæli í á annan sólarhring í möstrum hvalveiðiskipa félagsins í Reykjavíkurhöfn áður en fyrirtækið hélt loks til veiða á hvalveiðiskipum sínum Hvali 8 og Hvali 9. Fyrsti hvalurinn sem veiddist á Hval 8 þann 7. september var ekki aflífaður fyrr en 29 mínútum eftir að hann var hæfður í fyrra skiptið. Matvælastofnun er með eftirlit um borð, tók málið til skoðunar og tilkynnti þann 14. september að hvalveiðar á Hval 8 hefðu verið stöðvaðar tímabundið. „Við veiddum þennan hval 7. september. Síðan erum við búnir að veiða sex hvali í viðbót, þá loksins senda þau okkur þetta bréf. Að þau væru að spá í að stoppa skipið. Við fengum nær engan andmælarétt. Voru nær heilan dag að koma þessari spólu til okkar. Eftir að hafa legið yfir þessu í viku að skoða þetta myndband. Þetta er algjörlega fráleit stjórnsýsla,“ segir Kristján. Hann segir alveg skýrt að bilun í spili á skipinu hafi gert það að verkum að ekki var hægt að aflífa hvalinn fyrr. Óhöpp geti alltaf gerst. „Ef þú verður fyrir svona skakkaföllum eins og það slitnar eða losnar krókur og slæst í hlíf á spilinu og stoppar það algjörlega þá er auðvitað ekki gert ráð fyrir því í reglugerð. Það er bara gert ráð fyrir að ef eitthvað fer úrskeiðis þá sé það lagað og svo haldið áfram. Þeir taka þetta þannig og segja í textanum sem þeir senda okkur að þótt spilið hafi verið úr leik þá hefði það ekki skipt neinu máli. Það hafi verið mörg tækifæri til að skjóta hvalinn,“ segir Kristján. Hann segir myndbandinu á vissan hátt blekkja þegar þysjað sé inn. „Ef þú zoomar inn þá sýnist hann (hvalurinn) vera mjög nálægt skipinu, en það er það sem ruglar þetta lið algjörlega í ríminu. Og á þessu er þetta byggt, eingöngu þessu.“ Að neðan má sjá upptöku frá veiðunum þar sem Hvalur 8 þurfti að skjóta tvisvar til að aflífa hvalinn. Hvalur 8 er enn í straffi en Kristján reiknar með því að Hvalur 9 haldi til veiða á ný síðar í dag. Hann segir mikið af hval fyrir sunnan Ísland. Hvert hvalveiðiskip getur veitt tvo hvali áður en halda þarf til hafnar á ný til að verka kjötið. Kristján segir óvíst hvort og hvenær Hvalur 8 fari aftur út. Varla á þessari vertíð. „Hann liggur í Hvalfirði. Ég veit ekkert. Ætli við fáum ekki bréf frá þeim á aðfangadag? Ég hef ekki hugmynd um það.“ Kristján segir fyrirtækinu nýverið hafa borist langur spurningalisti með hinum ýmsu spurningum, mörgum hverjum sem beri þess merki að lítill skilningur sé á hvalveiðum. „Hefðu þau sent okkur allar þessar spurningar áður þá hefðum við ekkert þurft að standa í þessu. Þau skilja ekkert gang málanna. Nú koma þau og spyrja okkur spurninga, langan lista. Ég veit ekki hvort þau skilji það heldur. Það er enginn þarna innandyra, eftir því sem ég best veit, og Árni Sverrisson formaður skipstjórafélagsins benti á, sem veit nokkuð um sjósókn. Þetta er skelfilegt fyrir atvinnulífið,“ segir Kristján. Árni var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Aðspurður hvort það geti verið að í svo fjölmenni stofnun hafi enginn reynslu af sjósókn er Kristján ekki í nokkrum vafa. „Ég er alveg sannfærður um það. Ég vil fá að sjá þann mann og hitta hann. Sem veit eitthvað um sjósókn á þessari Matvælastofnun. Svo nota þau þessi svokölluðu dýraverndunarlög. En í þeim eru undanþegin að okkar mati veiðar og föngum á villtum fiski. Ef þú lest þessi lög þá snýst það allt um búfénað. Veiðar á villtum dýrum eins og hvalurinn er er undanþeginn að okkar mati. Þau segja nei. Í þessu stendur stappið.“ Hver er tíminn? Eftirlit Matvælastofnunar í fyrra benti á að fjórða hvern hval hefði þurft að skjóta oftar en einu sinni. Kristján var spurður hvort það væri eðlilegt hlutfall. „Ég get ekkert alhæft. Stundum er hvalurinn hálfdauður og menn skjóta hann bara aftur til að vera öruggir. Þá eru komnir tveir skutlar í hann. Til að vera fljótir að þessu. Hvað er ásættanlegur tími? Það veit það enginn. Það er hvergi skrifað niður. Menn geta haft hvaða skoðun á því sem þeir vilja. Þetta er bara hluti af dylgjum hjá þessu liði og MAST gengur fram fyrir skjöldu. Segir að samkvæmt anda þessara dýraverndunarlaga sé þetta alltof langur tími. En hver er tíminn? Ef þú myndir spyrja þau að því þá færðu ekkert svar því það er ekki neinn tími til. Við gerum þetta eins hratt og við getum en svo geta hlutirnir farið úrskeiðis. Það er í öllu og hverju sem þú nefnir.“ En ætli skytturnar í gamla daga hafi verið betri? „Æfing gerir það að verkum að menn eru búnir að ná betri tökum á hlutunum þegar menn eru búnir að vera í mörg ár. En síðan eru þeir sem eru hjá okkur núna mjög góðir skotmenn.“ Bíða eftir umboðsmanni Kristján var spurður að því hvort Hvalur hyggðist leita réttar síns vegna frestunar vertíðar með skömmum fyrirvara í vor. „Við erum að bíða eftir áliti umboðsmanns Alþingis sem kemur örugglega í október/nóvember. Í svona atburðarás skoða allir alla hluti. Þeir í Brim fóru í það að kíkja á þetta með Samkeppniseftirlitið og matvælaráðuneytið. Guðmundur Kristjánsson er ekkert feiminn. Hann fór bara í þetta og hefur haft algjört ippon í þessu,“ segir Kristján. Ippon er orð yfir fullnaðarsigur í bardagaíþróttum. „Við hugsum okkar gang og svo sjáum við næstu skref. Menn eru oft að útvarpa hvað þeir ætla að gera en svo heyrist ekkert meira. Við höfum ekki verið á þeirri bylgjulengd.“ Svandís hegði sér eins og Stalín Hann er ekki sáttur við framgöngu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. „Þetta er náttúrulega stjórnsýsla fyrir neðan allar hellur. Þetta er svona Stalínista stjórnsýsla eins og var hjá Stalín í gamla daga. Hann hélt réttarhöld, lét ákveða eitthvað og svo voru menn teknir af lífi. Við erum reyndar ekki skotnir en okkur er haldið í landi í tvo mánuði til að gera þessa vertíð algjörlega ómögulega. Það verður ekkert úr henni fyrir vikið. Þetta er svipað stjórnarfar sem er veri að innleiða hérna af þessum Vinstri grænum. Það hlýtur að vera krystal klárt flestum þeim sem að stúdera það.“ Kristján er grjótharður Sjálfstæðismaður, á góða vini í flokknum og hefur verið verðlaunaður af ungum Sjálfstæðismönnum fyrir framgöngu sína. Hvernig ætli honum finnist samflokksflokkur VG í ríkisstjórn, hans eigið fólk í Sjálfstæðisflokknum, standa sig? Hvalur hf fékk frelsisverðlaun ungra Sjálftstæðismanna árið 2018 fyrir baráttu sína fyrir hvalveiðum á Íslandsmiðum. „Hvalveiðar fela í sér mikilvægt atvinnufrelsi en Hvalur hf. hefur í fjölmörg ár barist fyrir því að veiðar á hvölum séu leyfðar, enda er um sjálfbæra nýtingu að ræða sem styðst við vísindaleg gögn.“ „Þeir eru að reyna að malda í móinn en einhvern veginn virðist stjórnarráðið lagt þannig upp að ráðherra segir: „Þetta er minn málaflokkur. Ég ræð hér.“ Hún hreyfir sig aldrei fyrr en Alþingi er farið heim. Þá byrjar hún í reglugerðarstandi. Þá keyrir hún þetta allt í gegnum reglugerðir, leggur ekki fram frumvarp. Þetta er að mínu mati Stalínista stjórnsýsla.“ Kristján segir hvalveiðiskipin hafa skotið fimmtán langreyðar það sem af er mánuði. Það sé ágætt miðað við það veður sem hafi verið í boði. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu voru fjórtán langreyðar dregnar til hafnar en línan slitnaði í einni langreyðinni. „Þetta snýst allt um veður. Ef veðrið er gott þá gengur vel. Ef það er bræla þá erum við bara í landi. Það þýðir ekkert að vera að þrusa hér úti. Það er hvalur þarna á svæðinu þannig að það er ekki málið.“ Stefnir ótrauður á veiðar að ári Óðum styttist í lok vertíðar, sem er nýhafin. Kristján segir um 150 manns starfa í bransanum; á skrifstofunum í Hafnarfirði, Hvalfirði og á bátunum. Kristján Loftsson fer aldrei sjálfur á sjóinn. Hann er sonur Lofts Kristjánssonar sem var á fullu í hvalveiðum áður en Kristján tók við keflinu.Vísir/Vilhelm „Við verðum aldrei lengur en fram í lok september. Þetta fer eftir veðri og mannskapurinn okkar er með önnur áform. Við verðum orðnir fáir. Svo er komið svo mikið myrkur mánaðamótin september/október. Nema það sé sérstaklega gott veður. Sem hefur komið fyrir. En þú veiðir ekki 160 hvali. Það er enginn vandi að veiða þá og sökkva þeim ef það er það sem menn vilja. En það er nú ekki galsinn í þessu. Menn reyna að koma þessu í land og nýta eins og hægt er.“ Hann vonast til að geta flutt tuttugu prósent af ónýttum kvóta á milli ára, eins og heimild er fyrir í sjávarútveginum. Þar ræður þó miklu hvort Hvalur hf. fái leyfi til veiða á næsta ári. Fimm ára heimild fyrirtækisins til veiðanna rennur út um áramót. Kristján segir Hval hf. ætla að sækja um nýja heimild til veiða. „Já, allur okkar búnaður er gíraður inn á hvalveiðar og vinnslu hvalaafurða. Þannig að það liggur alveg fyrir.“ Gengi vel ef Hvalur fengi frið Kristján hefur tekið eftir umræðu þess efnis að hann sé einfaldlega sportveiðimaður. Þetta sé tómstundagaman enda lítill hagnaður af veiðunum undanfarin ár. „Þeir eru að reyna að koma þessu inn, þetta antíhvalalið, að hvalveiðarnar séu sport hjá mér. Ég fer aldrei sjálfur út á sjó. Sportveiðimenn eru alltaf í laxveiðiánum sjálfir en þetta er atvinnuvegur þar sem þú ræður aðra í verkið. Þetta gæti gengið ágætlega ef við hefðum einhvern frið,“ segir Kristján. Hann staldrar við baráttu Hvals fyrir veiðum undanfarinn áratug eða svo. „Við vorum með bráðabirgðaleyfi til að vinna í mörg ár út af þeirra túlkun á ýmsu. Svo sögðu þau að við þyrftum að sækja um fullnaðarleyfi og það tók þá þrjú ár að afgreiða það. Það komu spurningar og spurningar, við svöruðum þeim. Svo þegar þeir fóru eftir þrjú ár að spyrja sömu spurninganna aftur sem við höfðum svarað árið 2018 þá sendum við stjórnsýslukæru í matvælaráðuneytið að þetta gengi ekki. Þá kom leyfið um leið. Ráðuneytið fyrir rest tók stjórnsýslukæruna fyrir og gaf þeim orð í eyra. En ég veit ekki hvort þeir hafi fengið stöðuhækkun sem komu nálægt þessu. Mér sýnist ekki hafa fækkað þessu fólki sem var með þennan leikaraskap við okkur.“ Félagið hefði skilað hagnaði hefði það fengið að starfa í eðlilegu umhverfi undanfarinn áratug. Skipafélögin stundi aðskilnaðarstefnu „Já. Auðvitað er í öllum rekstri alls kyns hlutir sem gerast. Gengi gjaldmiðla og ýmislegt annað. Mörg fyrirtæki eru ekki í gróða. Hér á Íslandi er verið að sækja stíft á fyrir ykkur, að ríkisstjórn styrki fjölmiðla. Það er af því það virðist ekkert út úr því að hafa. Ríkissjóður er þá að borga kaupið þitt. Þú verður að taka þetta allt í samhengi.“ Hann segir fyrirtækið nær eingöngu selja hvalkjöt til Japans. „Við erum í sambandi vði eitt fyrirtæki sem hefur tekið þetta sem fór í fyrra og verður áfram. Ágætismenn þarna í Japan. Það er ekki vesenið að selja þetta. Það er aðeins flóknara að senda þetta því skipafélög í Evrópu, ef þeir hafa tvo fjörutíu feta frystigáma - einn með hvalaafurð í en hinn með fiskinn - þá skilja þeir hvalinn eftir og taka fiskinn. Þeir eru hræddir um að antíliðið banki upp á og fari að djöflast í þeim. Þeir reka svona nokkurs konar apartheid (innskot blaðamanns: aðskilnaðarstefnu), eins og Mesk skipafélagið danska. Þeir segjast ekki flytja afurðir af hvölum ef þær eru veiddar í viðskiptasamhengi. Þess vegna höfum við farið í að leigja skip og senda beint til Japan. Þá þarftu að hafa dálítið magn til þess.“ Hvalkjötið sé allt borðað í Japan. „Það er hrátt og unnið og svona. Það er eftirspurn eftir því. Að magni til miðað við það sem við sendum í fyrra erum við með meira magn en Japanirnir veiða sjálfir.“ Borðar hvalkjöt af og til Þá segir Kristján hvalinn líka vinsælan hér á landi. „Aðalvaran hérna er rengi eða það sem margir kalla súrhval. Þú verður að skjóta hvalinn til að geta unnið rengið. Þú býrð það ekki til í einhverjum prentara eins og farið er að prenta fisk og grænmeti. Tel ég að sé ekki hægt. Það er mjög vinsælt. Við tökum af hvalnum það sem við getum. Það er ekki alveg hægt að taka af öllu. Ef þeir eru mjög stórir þá verður þetta svo gróft. En við göngum nálægt þessu eins og við getum því það er mikil eftirspurn. Fólki finnst þetta gott, rengið. Sem er séríslensk afurð.“ Kristján kann að meta hvalkjöt. „Ég borða hann af og til. Ekki í hvert mál svo sem. En mér finnst hvalkjöt mjög gott, og rengi.“ Fullur efasemda með undirskriftir vestanhafs Aðspurður um athugasemdir Leonardo Di Caprio og fleiri nafntogaðra aðila í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood, sem hafa hótað að hundsa Ísland verði ekki látið af hvalveiðum, segir Kristján það ekki halda fyrir sér vöku. „Nei. Þetta er bara stormur í vatnslgasi. Í gamla daga þegar mestu lætin voru í kringum hvalina og margir að lýsa yfir andstöðu þá komu svona bréf. En það voru allir sem skrifuðu undir þetta með eigin hendi. Í dag er það tölva sem skrifar þetta út. Hafið þið hér á Stöð 2 kannað hvort það sé eitthvað í þessum mótmælum hjá þessu fólki? Er þetta bara tekið á face value, eins og sagt er á ensku, þetta hlýtur að vera rétt - út með þetta. Ef þið eruð í rannsóknarblaðamennsku þá ættuð þið að kanna þetta líka.“ Norðmenn hafi ekki hlustað á slíkar raddir frá Hollywood. „Större forsætisráðherra sagði að þeir myndu ekki hlusta á einhverja Hollywood kalla. En ríkisstjórn Íslands þegir þunnu hljóði.“ Rafmagn þurfi að þróa áfram Í nýrri reglugerð um hvalveiðar er tekið fyrir notkun rafmagns. Kristján segir sprengjurnar sem nú séu notaðar ágætar. „Þær eru það besta sem þekkt er. En þetta dæmi sem við byrjuðum að tala um þá fór það ofarlega í hausinn á honum. Þess vegna tók þetta þennan tíma. Spilið gerði útslagið,“ segir Kristján og vísar til þess þegar tæpan hálftíma tók að aflífa hvalinn 7. september. „Ef þú vilt hafa einhverja þróun þá þarftu að prófa og þróa áfram það sem menn hafa horfið frá,“ segir Kristján og snýr sér að rafmagninu. „Rafmagn var notað í Suður-Íshafinu af Bretum og Norðmönnum fyrir sirka sjötíu árum síðan. Þá voru þeir að vefa kopar inni í skutlinum. Svo voru þeir með rafmagnsgræjur um borð. Einn póllinn var í sjónum. Miklu frumstæðari græjur en eru í dag. Þeir drápu um tvö þúsund stórhvali með þessu.“ Hvalirnir hafi almennt flotið en þó komið upp að þeir sukku, því það var ekkert loft í þeim. Þá hafi komið átak á skotlínuna. Rafmagn myndi tryggja dauða á tíu sekúndum „Þeir þurftu að hífa hann upp úr djúpinu til að ná honum að síðu skipsins. Svo hlóðu þeir aftur en þá var koparlínan farin í sundur. Þeir gátu ekki leyst þetta. Þurftu alltaf að skipta um og skipta um. Þeir gáfust á þessu. Línan var ekki nógu örugg til að geta flutt rafmagnið svo þetta gengi smurt fyrir sig.“ Hvalur hf. hafi látið útbúa línur með kopar sem er fléttaður inn í efnið, sem er gerviefni. „Það er meiri teygja í koparnum en teygist á sjálfri línunni, sem er ekki mikið sem teygist. Þetta er svo sterkt. Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta mun ekki verða Akkilesarhæll í þessu. Þetta er hugsað þannig að hvalurinn fái í sig 26 amper í tíu sekúndur. Við það að hjartað stoppar þá er heiladauði strax. Þannig að þetta er mjög áhrifaríkt og með sprengjunni þá hefðu allir þessir hvalir sem þurfti að umskjóta orðið steindauðir um leið. Eg er ekki í nokkrum vafa um það.“ Kristján vill svo, þegar komin sé reynsla á notkun rafmagns, að hvalir verði eingöngu drepnir með rafmagni. „Það er það sem ég er mest spenntur fyrir. Sprengjuefni er alltaf hættulegt. Ef þú kaupir rakettu á gamlársdag.. ef þú ferð eftir leiðbeiningum þá gerist ekki neitt. En ef þú ert að fikta, gerir eitthvað vitlaust, þá slasarðu þig á þessu.“ Það yrði mikil bót að losna við sprengjuhættuna. Minnir á slátrun sauðfés „Með rafmagninu væru engar sprengjur lengur. En þá kemur stimplaelítan og segir: „Nei nei nei þetta er tilraun“.“ segir Kristján og honum sé sagt að sækja um eins og ég væri með einhverja rottu í tilraunastöð. „Þetta er áframhaldandi þróun á aðferð sem var reynd á sínum tíma en gekk ekki út af þessu. Svo er galað hér á Íslandi af ráðamönnum. Þróun, þróun, þróun, þróa nýtt. Ausa fé í þetta endalaust. En svo þegar við komum þá þarf að sækja um hér og þið fáið kannski svar við því árið 2025. Veistu, þetta er mjög undarlegt umhverfi sem þú ert í hér í dag, atvinnulífið á Íslandi. Sérstaklega stimplaelítan sem er grasserandi hér um allt land og fækkar ekki í.“ Hann hvetur fólk til að horfa á hlutina í víðara samhengi. Kristján ekur um á bíl sem einkanúmerinu G21 sem karl faðir hans var með á sínum tíma. G vísar til Gullbringusýslu.Vísir/Vilhelm „Fólk hefur skoðanir og má hafa hvaða skoðanir sem það vill. Settu þetta í samhengi við eitthvað annað. Það þýðir ekki að horfa á svona einstakt tilfelli,“ segir Kristján. Hann spyr hvort fólk sé almennt upplýst um hvernig sauðfé sé slátrað? „Mér er tjáð að rafmagnskaut sé sett á hausinn á kindinni og hún fer í heilastopp. Síðan er henni ýtt út úr klefanum, hengd upp á afturlappirnar og skorin á háls. Svo kemur næsta, næsta og næsta. Ef eitthvað fer úrskeiðis, þetta eru færir menn og ég efast ekki um að þeir gera sitt besta, en ef eitthvað fer úrskeiðis þá rankar hún við sér aftur. Rafmagn er notað víða í sambandi við aflífun. En það halda margir að það sé slátrað með byssu í sláturhúsi. En það er ekki þannig í dag.“ Á undanþágu svo Pétur og Páll finni þá ekki Fram hefur komið að Hvalur gefur ekki upp staðsetningu á skipum sínum eins og flest ef ekki öll önnur skip og bátar á Íslandi. Kristján vísar til heimildar til þess. „Ég hafði samband við Landhelgisgæsluna og óskaði eftir því að við fengjum að hafa slökkt á því að Pétur og Páll gætu séð nákvæmlega hvar við værum. Við sendum á þeim tímafresti sem þeir óska eftir til stjórnstöðvar svo þeir vita nákvæmlega hvar við erum,“ segir Kristján. Fyllsta öryggis sé gætt og það sé raunar ástæðan fyrir því að hver sem er geti ekki nálgast staðsetninguna. „Hér voru í fyrra skip að elta okkur. Í tvo mánuði í fyrrasumar var eitthvert skip gert út frá Hollandi, skráð í Panama eða einhvers staðar, á eftir okkur í humátt. En þeir höfðu aldrei árangur sem erfiði því þeir fundu okkur ekki svo glatt. Lágu í minni Hvalfjarðar og fylgdu okkur. En við höfðum heldur meiri orku en þeir og gátum snúið þá af okkur. Þeir höfðu aldrei árangur sem erfiði. Þetta gerum við meðal annars til að varna því að við séum með einhverja gangstera og terrorista sem eru að elta okkur að gera okkur mein. Því þú veist ekkert hvað þessu fólki dtetur í hug. Þetta eru terroristar af fyrstu gráðu og þeir valsa hér um og þið fréttamenn margir hverjir eru mjög hrifnir af þessu fólki.“ En myndi Kristján hvetja aðra til að veiða hvali? Vill hann samkeppni eða er gott að sitja einn að hvalveiðum hér á landi? „Það er helvíti dýrt að setja þetta í gang eins og er í dag. Já já, það geta fleiri verið í hvalveiðum en við. En þetta myndi kosta mjög mikið miðað við allt regluverkið sem er í kringum þetta. En stofnanir þola meiri veiði en við veiðum í dag. Öll þessi líkön sem reikna þetta út, fjörutíu þúsund dýr í kringum landið. Kvótínn 160 hvalir. Um þetta hefur verið samið í alþjóðahvalveiðiráðinu. Hugmyndin að þessum módelum eins og ég skil þetta er að það sé ekki nokkur möguleiki að þú getir útrýmt hvali næstu 3000 árin. Þess vegna er þetta svona íhaldssamt.“ Hvalurinn og loftslagsvandinn Þá heldur hann á lofti umræðu undanfarnar vikur þar sem fullyrt hefur verið að hvalveiðar hjálpi til við loftslagsvandann. „Allar greinar sem ég hef séð, þær byggja á því að kúkur og piss frá hvalnum í hafinu sé svo svakalega mikilvægur, sem hann er. En í þeirra greinum sleppa þeir því þegar hvalurinn blæs. Þaðan kemur koltvísýringur. Ef þú dregur frá kúk og pissa þá er það helmingurinn af því sem hann blæs. Þetta er svakalegt magn og hjálpar ekki upp á andrúmsloftið, ef það er eitthvað að marka þessar kenningar. Allar þessar greinar sem ég hef séð þar sleppa þeir því að hvalurinn er að blása. Af því þeir eru að skrifa fyrri einhvern tiltekinn málstað.“ Þessu hefur verið mótmælt af fjölda vísindamanna. Þar á meðal Hilmari J. Malmquist líffræðingi og forstöðumanni Náttúruminjasafns Íslands. Kristján er nýorðinn áttræður. Hann hefur engar áhyggjur af því að hvalveiðum ljúki þegar hann láti af baráttu sinni. „Ég hef engar áhyggjur af því. Það er fullt af fólki til. En þetta er ekkert fjölskyldufyrirtæki og það eru ansi margir hluthafar. Ég og systir mín eru stærstu hluthafarnir. Þegar Hvalur var stofnaður 1947 þá voru hátt í hundrað hluthafar sem var mjög óalgengt á þessum tíma. Menn í útgerð, skipstjórar á togurum og ýmislegt. Með tímanum hafa menn selt og aðrir komið inn. En Hvalur er hlutafélag með mörgum hluthöfum. Þetta er alltaf eignað mér en það er algjör misskilningur,“ segir Kristján. Sannfærður um að samfélagið standi með hvalveiðum Hann horfir björtum augum fram á veginn. Með fyrirvara þó. „Ég sé framtíðina bjarta ef við erum látnir í friði af þessari stimplaelítu. Þetta snýst um það. Þeir eru allir á eftir okkur, alveg á fullu. Það sést ef þú rýnir í þetta í friði og ró þá sérðu hvernig þetta er hugsað.“ Hann er ekki á þeim buxunum að láta af baráttu sinni. Hann standi áfram og berjist fyrir málstað sínum. „Já, er ekki alltaf að koma yngingarlyf og svona? Nei, ég er ekkert smeykur.“ Hann er sannfærður um að meirihluti landsmanna sé með honum í liði. „Samfélagið er með okkur. Ég verð ekki var við annað. Fólk stoppar mig úti á götu og spyr, vill endilega fá rengi. Fyrir þorrablótið. Fólk sem ég þekki ekki neitt. Ég er sannfærður um að almenningur stendur algjörlega með okkur.“
Hvalveiðar Sjávarútvegur Stjórnsýsla Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur Mest lesið Skip úr skuggaflotanum hægði grunsamlega mikið á sér Erlent Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Innlent Komu hesti til bjargar úr gjótu Innlent Margt bendi til að Rússar hafi haft aðkomu að flugslysinu Erlent Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Innlent Reyndu að ræna hraðbanka Innlent Slóvakar vilja hýsa friðarviðræður Rússlands og Úkraínu Erlent Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Innlent Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Innlent Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Innlent Fleiri fréttir Reyndu að ræna hraðbanka Komu hesti til bjargar úr gjótu Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Áfram töluverð snjóflóðahætta á Vestfjörðum Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Snjóflóðahætta á Vestfjörðum og frumsýning Yermu Holtavörðuheiðinni lokað aftur í kvöld Sex voru fluttir með þyrlunni Gamla ríkið falt og milljónir fylgja Telja skemmdir í Bláfjöllum minniháttar Súðavíkurhlíð opin til 16 Alvarlegt bílslys í Öræfum Rólegt á aðfangadag en mikil aðsókn í viðtalstíma í desember Snjóflóð féllu á Súðavíkurhlíð Rúta rann yfir rangan vegarhelming út í móa Týndu vagni með jólamáltíðum sjúklinga á bráðamóttökunni Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð og rólegt í Kvennaathvarfinu Skógaskóli verður hótel Grímuskylda á Landspítalanum Búið að opna Hellisheiði og Holtavörðuheiði Strætó rann á bíl og ruslaskýli Töldu að ævilöng vesælmennska biði „barnanna á mölinni“ Jólakindin Djásn á Stokkseyri Standa vaktina á jóladag: „Þetta er bara eins og hina dagana“ Standa vaktina við lokunarpósta á jóladag Flugferðir hafnar að nýju í Keflavík Þak fauk nánast af hlöðu Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Sjá meira