Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir af varnargörðunum. Suðurverk hóf gerð þeirra fyrir þremur árum með verksamning upp á 1,3 milljarða króna sem lægstbjóðandi.

„Þetta er á lokametrunum, þessi áfangi ofanflóðavarna á Patreksfirði. En það eru margir áfangar eftir enda er eiginlega ofanflóðahætta hérna yfir öllum bænum og líka á Bíldudal,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Þrjúhundruðþúsund rúmmetrar jarðvegs fóru í garðana sem umbreyta rótgrónni fjallshlíð. Bæjarstjórinn telur að íbúar muni sættast við ferlíkin.

„Þetta eru bara ótrúlega fínir garðar sem veita okkur ákveðið öryggi við þessari vá sem við byggjum hér á. Þannig að við erum bara sátt við þetta og viljum náttúrlega að það sé haldið áfram með fleiri varnir í sveitarfélaginu,“ segir bæjarstjórinn.
Útsýnispallar vekja athygli okkar en heimamenn hafa á orði að sá sem hæst stendur bjóði upp á einhverja bestu sýnina yfir byggðina. En það er einnig verið að leggja göngustíga og huggulega áningarstaði fyrir ferðafólk að snæða nestið sitt.

„Já, það eru náttúrlega allskyns mótvægisaðgerðir. Það eru útsýnispallar og skemmtilegir svona pikknikk-staðir.
Og góðir göngustígar, bæði upp á varnargarðana og líka fyrir aftan og í kringum. Þannig að við erum að fá þarna bara stórt íþróttamannvirki með görðunum.“
Og reynt var að tvinna gamlan skógræktarreit inn í mannvirkin, sem bæjarstjórinn segir að hafi verið reynt að skerða sem minnst.

„Það er verið að gera skógræktinni hátt undir höfði og halda henni til staðar, sem skiptir náttúrlega líka máli varðandi bara fegurð svæðisins.“
En verða garðarnir kannski aðdráttarafl fyrir ferðamenn?
„Það er það. Og það er bara víða á Íslandi sem ferðamenn eru mikið að labba upp á snjóflóðavarnagarðana. Þetta eru rosalega flott mannvirki,“ segir Þórdís.
Og bæjaryfirvöld buðu meira að segja forseta Íslands að njóta útsýnis af pallinum.

„Hvet alla sem koma í heimsókn að kíkja upp á pall. Við fórum um daginn með forsetanum og honum leist bara mjög vel á,“ segir bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: