Enski boltinn

Verður VAR-dómari hjá Liverpool í fyrsta sinn frá því Van Dijk meiddist gegn Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk sleit krossband í hné eftir grófa tæklingu Jordans Pickford í gtannaslag Everton og Liverpool fyrir þremur árum.
Virgil van Dijk sleit krossband í hné eftir grófa tæklingu Jordans Pickford í gtannaslag Everton og Liverpool fyrir þremur árum. getty/Laurence Griffiths

Dómarinn sem var í VAR-herberginu á frægum leik Everton og Liverpool haustið 2020 verður VAR-dómari í fyrsta sinn síðan þá hjá Liverpool um helgina.

David Coote dæmdi 2-2 jafnteflisleik Everton og Liverpool í október 2020. Leiksins er helst minnst fyrir alvarleg meiðsli sem Liverpool-maðurinn Virgil van Dijk varð fyrir eftir harkalega tæklingu Jordans Pickford, markvarðar Everton.

Coote var VAR-dómari á leiknum fyrir þremur árum og ákvað að reka Pickford ekki af velli. Þess í stað var dæmd rangstaða á Liverpool.

Coote dæmdi leik Liverpool og Preston í deildabikarnum í október 2021 en hefur ekki verið VAR-dómari á leik hjá Liverpool frá atvikinu með Van Dijk og Pickford.

Það breytist á laugardaginn þegar Liverpool mætir einmitt Everton. Þá verður Coote í VAR-herberginu. Craig Pawson dæmir leikinn.

Liverpool er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Everton í því sextánda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×