Þjóðkirkjan hefur það sem af er þessu ári keypt lögfræðiþjónustu fyrir 23 milljónir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Ekki kemur fram í hvaða verkefni peningurinn hefur farið en samkvæmt heimildum blaðsins hafa háar upphæðir verið greiddar vegna ráðgjafastarfa fyrir biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur.
Mál sem snertir hana og sr. Gunnar Sigurjónsson, fyrrverandi sóknarprest í Digraneskirkju, hefur verið rekið fyrir úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar. Úrskurður féll í vikunni en Agnes hefur gefið út að hún muni skjóta niðurstöðunni til dómstóla.
Sérstök stjórn tekur við
Þá er einnig fjallað um það í Morgunblaðinu að starfshópur kirkjuþings hefur nú lagt það til að sérstakri stjórn þjóðkirkjunnar að hafa yfirsýn yfir rekstur og þjónustu kirkjunnar sem er á ábyrgð kirkjuþings. Stjórnin starfar á ábyrgð kirkjuþings og mun lúta boðvaldi þess. Frá málinu er greint í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að stjórnin mun hafa skýrt umboð til umboðs og eftirlits.
Starfshópurinn var skipaður í vor og átti að skoða skipulag kirkjunnar og meta þörf á breytingum.
Þá er fjallað um það í tillögunum, samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins, að einnig eigi að leggja niður Biskupsstofu í núverandi mynd og að aðeins einn starfsmaður muni heyra undir biskup sjálfan, biskupsritari. Aðrir muni heyra undir framkvæmdastjóra, stjórn og kirkjuþing.
Þá er lagt til í tillögunum að biskup hafi ekkert með fjármál kirkjunnar að gera og þannig tekið af embættinu það vald að gera starfslokasamninga og annars konar samninga við undirmenn. Eins og hefur verið mjög gagnrýnt undanfarið.
Tillögurnar verða lagðar fyrir kirkjuþing sem fer fram síðar í þessum mánuði. Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.