Tónlist

Frum­sýning á Vísi: Líður stundum eins og líkaminn sé fangelsi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Haraldur kemur sjálfur fram í myndbandinu við lagið og klippir það.
Haraldur kemur sjálfur fram í myndbandinu við lagið og klippir það.

Haraldur Þor­leifs­son gefur í dag út sína þriðju smá­skífu og tón­listar­mynd­band undir lista­manns­nafninu Önnu Jónu Son við lagið Take These Bones. Mynd­bandið er frum­sýnt hér að neðan á Vísi.

„Þetta er mjög persónulegt lag. Þetta er um sjálfan mig og veikindi mín,“ segir Haraldur í samtali við Vísi. Hann segist oft upplifa sem svo að líkami sinn sé fangelsi.

Lagið er að finna á væntanlegri plötu hans The Radio Won't Let Me Sleep sem kemur út í maí á næsta ári. Tónlistarmaðurinn hyggst auk þess koma fram í Gamla Bíó á Iceland Airwaves á laugardagskvöld kl. 20:30.

Klippa: Önnu Jónu Son - Take These Bones

Líkaminn oft eins og óvinur

„Ég er með vöðvarýrnunarsjúkdóm sem hefur þau áhrif á líkama minn að hann er smám saman að gefast upp og gera minna og minna fyrir mig. Ég er í allskonar vinnu að reyna að vinna mig út úr þessum þessu en mér finnst eins og hann sé svolítið mikið fangelsi,“ segir Haraldur.

„Hann stoppar mig í að gera það sem mig langar til að gera. Hann er eiginlega óvinur minn. Þannig að lagið er um það og um þetta, að vera í líkama sem er að gefast upp.“

Finnst þér þú fá útrás fyrir þessar tilfinningar í gegnum tónlistarsköpunina?

„Já, það hjálpar mér rosa mikið að hugsa svolítið djúpt um það hvernig mér líður og koma því svo frá mér. Það hjálpar rosalega mikið af því að það eru allskonar, eins og hjá öllum, allskonar hlutir sem við upplifum en við förum aldrei í gegnum það hvernig þeir láta okkur líða. Þannig mér finnst þetta sköpunarferli hjálpa mér að vinna mig í gegnum það. Það hefur verið mjög hjálplegt upp á það að gera.“

Auðveldara að berskjalda sig opinberlega

Helmingurinn af lögunum á væntan­legri plötu Haraldar er saminn af honum á tíunda ára­tugnum en hinn helmingurinn ný­lega. Þetta lag til­heyrir síðar­nefndu lögunum en Haraldur hefur fengið fjölbreyttan hóp fólks til liðs við sig við gerð tónlistarmyndbandanna.

Í þetta sinn var myndbandinu leikstýrt af brasilíska leikstjóranum Gregorio Graziosi og var helmingur þess tekinn upp í Brasilíu, en hinn á Íslandi.

„Mér fannst eitthvað vanta þannig að ég fékk með mér góðan tökumann og við tókum upp hérna heima hjá mér. Síðan er ég svo erfiður í samstarfi að ég þurfti að klippa vídjóið allt sjálfur til þess að það væri allt eins og ég vildi,“ segir Haraldur hlæjandi.

Áður hefur Haraldur frumsýnt tónlistarmyndbönd við tvö lög af plötunni. Það voru lögin Big Boy Boots og Almost over you en hann sagði við tilefnið við Vísi að um væri að ræða afar persónuleg lög.

Finnst þér erfitt að berskjalda þig í hvert sinn sem það kemur nýtt lag?

„Mér finnst það erfitt. Það sem er mjög skrítið og ég hef aldrei skilið sjálfur, er að mér finnst auðveldara að berskjalda mig opinberlega heldur en í samtali,“ segir Haraldur.

„Ég hef haldið mikið af fyrirlestrum og ég tala bara mjög opinskátt og segi miklu meira en ég myndi gera en ef ég væri að tala bara við einhvern, meira að segja einhvern sem mér þykir vænt um, maður á mann. Það er mjög skrítið. Mér finnst auðveldara að koma hlutunum frá mér, ef ég fæ að pakka þeim saman og setja þá bara út, heldur en að vera að vinna þá í samstarfi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×