Sagt var frá andláti Ellerts á vef Víkurfrétta í gær.
Ellert fæddist í Grindavík árið 1938 og flutti til Keflavíkur þriggja ára gamall. Ellert stundaði ýmis störf þegar hann var ungur að árum, en á sjöunda áratugnum varð hann yfirverkstjóri hjá Áhaldahúsi Keflavíkurbæjar.
Ellert var Sjálfstæðismaður og var sveitarstjóri í Gerðahreppi á árunum 1982 til 1990 og svo bæjarstjóri Keflavíkur 1990 til 1994. Ellert varð svo fyrsti bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna sem fékk nafnið Reykjanesbær árið 1994 og gegndi embættinu til 2002.
Hann var kjörinn heiðursborgari Reykjanesbæjar af bæjarstjórn Reykjanesbæjar árið 2016 og varð þar með fyrstur til að hljóta þá nafnbót.
Hann var einnig varaþingmaður Reyknesinga undir lok níunda áratugarins.
Eftirlifandi eiginkona Ellerts er Guðbjörg Sigurðardóttir. Þau eignuðust saman dótturina Guðbjörgu Ósk, en börn Ellerts frá fyrra hjónabandi eru Eiríkur, sem er látinn, Jóhannes og Elva. Börn Guðbjargar eru Sigurður Ingi, Páll og Una Björk.
Útför Ellerts verður frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 23. nóvember klukkan 13.